Þriðjudagsmorgun.

þá er komin þriðjudagur.  Það virðist hið besta veður, héðan séð í gegnum gluggana tvo.  Sólin er þó ekki farin að skína en lætur vonandi sjá sig þegar líða tekur á morguninn. Í gær fórum við bara aftur niður í Soho enda skemmtilegt hverfi að rölta um, ég ákvað að vera snemma í því að athuga hvort ég sæi eitthvað smart á mig áður en að við förum að þræða söfnin. Það er svo margt sem að maður sér í þessari borg, mannlífið er svo fjölbreytilegt að það skal alltaf koma manni á óvart.  Á einu götuhorninu var eldri svartur lögreglumaður að stjórna umferðinni.  Hann stóð ekki eins og spýta og veifaðu höndum eins og algengast er, heldur stjórnaði  hann með tilþrifum.  Hann tók dansspor mitt í öllu bílaflóðinu á gatnamótunum og lamdi sér á brjóst, klappaði lófunum saman hátt og fagmannlega í stað þess að nota flautu.  Við gátum ekki annað en staldrað við og horft á hann um stund.

Þegar við komum niður í Soho tóku við allar þessar dásamlegu búðir og við gengum fram hjá skóbúð sem að leit svo vel út að ég ákvað að líta nánar í gluggana, og þar sá ég draumaskóna mína.  Oh þetta eru æðislegir skór, þeir hrópuðu á mig að koma inn og athuga verðmiðann.  Ég ákvað að fara inn og viti menn þeir voru á útsölu, verðið hafði lækkað mikið, en ég ákvað samt að gleyma þeim í hvelli og gekk það bara mjög vel, því að verðið á þeim var 45.000 íslenskar krónur, höfðu lækkað úr 70.000.  Þessu  átti Ragnar mjög erfitt með að trúa, einir kvenskór á 45.000 og það á útsölu.  Já svona eru ansi margar búðirnar í Soho og ef að þær eru ekki svona dýrar þá er þetta bara eins og heima á Íslandi.  Auðvitað fann ég nú samt búð sem að ég gat verslað í og fór sæl með poka þaðan út.  Ég komst líka í garnbúð og bútabúð og þar var margt sem gladdi augað og ég stóðst ekki mátið að kaupa pínu á lagerinn minn. 

Ég hefði getað misst mig í mörgum búðum en ég er sem betur fer komin yfir það að þurfa að kaupa í þeim öllum, hefi gaman af því  að skoða bara líka.

Eftir að hafa fengið okkur kaffi fórum við heim og löbbuðum aðeins í þessu hverfi og það er pínu öðruvísi, en lífinu hér er eiginlega ekki hægt að lýsa á blogginu, ég verð að vera á staðnum og leika leikrit, þið vitið sem sagt hverju þið eigið von á þegar við komum heim.

Jæja ég heyri að hann Fúsi minn er kominn á stjá og þá er stutt í kaffiilminn, ég er að hugsa um að drífa mig niður til hans.

Bestu kveðjur frá Brooklyn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband