Laugardagsmorgun

Jæja þá er kominn laugardagur og kl. rétt átta að morgni og úti skín sólin.  Hér tekur fólk daginn snemma og ég nýt þess að sjá beint niður á götuna og gangstéttina.  Ég held að ég verði að lýsa þessu nánar.  Á herberginu er stór og fínn gluggi sem að gefur okkur sýn niður í stofuna en þó aðallega út um risastóran stofugluggann og þess vegna, þar sem að ég sit hér með bakið upp við vegg uppi í rúmi er bara eins og ég sé úti á gangstétt, en ég tek því fram að fólkið úti sér mig ekki.

Þetta er svolítið óskiljanlegt að lesa  held ég, en sonur okkar er jú arkitekt og því kemur hönnun efri hæðarinnar okkur ekki á óvart.  En sem sagt ég sit hér og Ragnar liggur ennþá enda laugardagsmorgun og við bara að hafa það náðugt.  Fólkið úti á götu er hinsvegar löngu komið á stjá og labbar hér framhjá, á leið á markaðinn í helgarinnkaupin.  Þetta eru ung pör með börn sem njóta þess að það er komin helgi.  Miðaldra fólk með fullorðna foreldra og svo einstaka fólk sem að er bara eitt á ferð og styður sig við staf.  Flestir eru með stórar innkaupakerrur sem fólk notar ekki aðeins þegar það fer að kaupa inn til helgarinnar heldur líka þegar það fer með þvottinn út í þvottahús og svo sá ég eina gamla að bera út blöð í morgun og hún var að nota sína kerru í það.

Ég hefi ekki séð neina hvíta manneskju á leiðinni á markaðinn enda ekki mikið um þær hér í þessu hverfi.  Þetta fólk er afskaplega kátt og skemmtir sér vel á leiðinni, spjallar saman og hlær og stöku maður syngur einn með sjálfum sér.   Það eru hins vegar ekki mikið um bíla á ferð með græjurnar í botni, það var í nótt.  Ég hugsaði rétt áður en að ég féll í svefn, að kanske hefði ég átt að fá mér eyrnatappa, en komst að þeirri niðurstöðu að þá mundi mér finnast ég vera að missa af einhverju skemmtilegu og svo sofnaði ég þrátt fyrir bíla og stuð hljóð, söng í fólki, hlátrarsköll og lestarglamur á 15 mín. fresti.

Í gær áttum við afskaplega skemmtilegan dag.  Fórum niður á Manhattan og nutum góða veðursins, fengum okkur kaffi og ískaffi og tókum svo aftur lest inn í Brooklyn og fórum af lestinni við Brooklyn brúnna og gengum yfir hana ásamt þúsundum af fólki sem að naut blíðunnar og tók myndir, þegar við vorum komin aftur yfir á Manhattan fótgangandi fórum við í Ráðhúsgarðinn sem að er við hinn enda brúarinnar og fórum í búð og fengum okkur salat og borðuðum það í garðinum.  Það var svo mikið af fólki þar eins og alltaf og trén með hvítum og bleikum blómum glöddu alla.  Það var mikið um brúðhjón að koma og láta taka myndir af sér í garðinum, en hér eins og víða annars staðar giftir fólk sig á föstudögum hjá fógeta og endurtekur svo á laugardegi í kirkju.

Eftir að hafa setið í garðinum góða stund ákváðum við að ganga aftur yfir brúnna og þá vorum við komin yfir í Dumbó þar sem að Situ studeo er og við fórum á kaffihús og hittum Fúsa og héldum síðan heim á leið með viðkomu á fínum markaði til að kaupa í matinn, þeir Fúsi og pabbi og Egill vinur og samleigjandi elduðu og ég hafði það náðugt á meðan.

En núna í hádeginu erum við á leiðinni til Prinston með mótelið hennar Florenciu og ætlum að eyða deginum þar og komum aftur í kvöld heim.  Við náum því að hlusta á þáttinn hennar Ólafar í útvarpinu áður en að við leggjum í hann.  Bestu kveðjur frá Brooklyn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband