27.5.2007 | 16:12
Hvítasunnuhelgin
Jæja nú fékk ég réttar upplýsingar og kom slides myndum í gagnið. Ég mátti til með að setja nokkrar myndir frá helginni inn á. Við vorum afskaplega stolt í gær þegar Ólöf náði þeim áfanga að útskrifast úr MH. Skólanum sem að hún byrjaði nám í fyrir næstum 20 árum en tók sér síðan hlé til að fara með Gunnari út í heim og snéri sér í byrjun alfarið að músikinni. Hún ákvað síðan þegar hún var búin að búa í útlöndum í 15 ár og eignast 3 stráka að taka upp þráðinn og er búin að standa sig afskaplega vel að klára þetta á skömmum tíma með öllu því sem að hún hefur að gera. Þetta var sem sagt stór stund. Gunnar var fjarri góðu gamni, á fullu í Þýskalandi að æfa fyrir Meistarasöngvana. Ólöf ákvað að vera því ekki með neina stórveislu, en sannarlega var þetta skemmtileg veisla fyrir okkur foreldrana, synina og Kristínu Völu litlu systur og Braga mág. Fúsi og Florencia náttúrulega líka fjarri að sinna sinni vinnu í Argentínu. Þær kíktu nú samt aðeins inn tönturnar hennar með blóm og vínflösku og síðan kom Gugga aðeins, og nánast endalaust af blómvöndum. Þetta var fallegur og skemmtilegur dagur. Ólöf er síðan að byrja nám í Þjóðfræði í Háskóla Íslands í haust. Hún ætlar svo til hans Gunnars síns núna í byrjun júní og við amman og afinn verðum með strákana okkar 3.
Það var gaman að Bragi skildi vera með okkur en vegna slæms veðurs norður í landi gat hann komið í bæinn og eytt nokkrum dögum með Kristínu sinni en þau eiga von á barni um mánaðarmót október/nóvember. Hann fer síðan aftur að fljúga með ferðamenn á Norðurlandi eftir helgina.
Í dag fórum við í göngutúr í Öskjuhlíðina með Ólöfu, Jökli og Ragnari og tveim vinum. Það heita víst ekki gönguferðir þegar þeir eru með, heldur ævintýraferðir og þetta var sannkölluð ævintýraferð því að hverinn var óspar á gosin og strákanir nutu sín í úðanum eftir að vera búnir að draga okkur inn á milli trjáa, helst sem minnst á hefðbundnum göngustígum.
Þetta er sem sagt búin að vera sólrík og skemmtileg helgi og heldur vonandi áfram að vera það, og hver veit nema að það verði þá önnur ævintýraferð á morgun.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju með dótturina. Gaman að sjá myndaseríuna hjá þér. Líka gaman að sjá þig á blogginu aftur.
Heidi Strand, 27.5.2007 kl. 17:40
Takk fyrir það Heidi. Já ég verð nú að viðurkenna að þetta er gaman, auk þess sem að maður getur deilt myndum til þeirra sem hafa gaman að. Maður er jú hættur að ganga með myndir í Hans Petersen umslagi í veskinu síðan allt fór í tölvurnar.
Jóna Sigríður Kristinsdóttir, 27.5.2007 kl. 20:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.