29.4.2007 | 13:06
Lestarferð, undirgöng og Tangó
Góðan dag öll sömul. Í gær þegar ég skrifaði á síðuna þá hugsaði ég með mér, tja nú fer ég að hætta þessu, fólk hlýtur að vera búið að fá leið á mér, og við búin að sjá svo margt að borgin getur ekki haldið áfram að koma okkur á óvart. En jú, dagurinn í gær sannaði það.
Við fórum um hádegi á flakk og byrjuðum á því að fara á kaffihús sem að sýndar eru myndir frá í þessari frábæru bók minni um fræg horn Buenos Aries. Þetta kaffiús stendur jú á einu af þessum hornum og heitir Las Violetas. Krakkarnir höfðu aldrei heldur komið á þetta kaffihús, ekki einu sinni Florencia. Við urðum frá okkur numin og þið sjáið það nú kanske á nýju myndunum í Argentínu albúminu. Skrautið og glæsileikinn er stórkostlegur og það er eins og maður detti inn í gamla daga því að þjónarnir umgangast fólkið sem að þarna kemur inn eins og hefðarfólk. ÉG hefi aldrei séð jafn mikið af flottum kökum og svo var hægt að kaupa líka kökur þarna til hliðar til að taka með heim og sannarlega hefði ég viljað það en við ákváðum að fá okkur disk með úrvali staðarins, bæði samlokur og kökur sem að var síðan skipt í bróðerni á milli. Við fórum södd og sæl út eftir að hafa tekið töluvert af myndum.
Leið okkar lá í elstu neðanjarðarlest Buenos Aries sem að er lína nr. 1. Það var upplifun nr. 2 þann daginn, vögnunum hefur verið haldið í upphaflegu formi á þessari línu og þeir eru allir úr harðviði, bara sannkölluð trélest. Allt inni í vögnunum er eins og þeir upphaflega voru, skrautið á stöngunum sem að fólkið heldur sér í, ljósakúplarnir upphaflegir og svo getur maður rennt niður trégluggunum , hreint og beint ótrúlegt að ferðast með þessu, mér fannst ég komin í Harry Potter svei mér þá.
Við fórum úr lestinni við stjórnarráðsbygginguna sem að ég held að ég hafi sent ykkur einhvertíma mynd af og Florencia átti ekki orð að við værum búin að vera á öllum þessum stöðum, sem að við löbbuðum á leið okkar niður að "Ljósaborginni" en það var næsta upplifun.
Þar fórum við í skoðunarferð með leiðsögukonu og Florencia þýddi allt jafnóðum fyrir okkur.
Ljósaborgin er samtengdar byggingar sem að standa við 4 götur sem sagt í ferhyrning, þær kallast ljósaborgin því að þessar byggingar voru miðpunktur þekkingar í borginni.
Trúboðar reystu þessar byggingar 1661 og t.d. er ennþá virtasti háskóli borgarinnar í þessum byggingum. Við fórum hringinn og okkur var sögð saga þeirra og síðan í undirgöng þar undir en undir Buenos Aries liggja undirgöng frá þessum tíma sem að í raun enginn veit hvaða tilgang höfðu, giskað er á undankomu leiðir eða jafnvel smyglara leiðir, svei mér ef að ég var bara ekki komin í Æfintýrabækurnar hennar Enit Blyton.
En þegar ég tala um Enit Blyton, vitið þið hver bjó hér á hæðinni fyrir ofan okkur, enginn annar en hinn frægi Vicktor Borges, hann kanske sat hér í herberginu fyrir ofan mig og skrifaði. Á einni af myndunum frá Tangó höllinni er stytta af honum, það var svo fyndið að sjá í gær að svo margir létu taka af sér myndir sytjandi í stólnum við hliðina á honum.
Jæja já það er það gærkveldið. Við fórum sem sagt á Tangó sýninguna og ég eiginlega get ekki lýst því með neinum orðum hvernig kvöldið var. Við fórum á Hótel hér rétt fyrir ofan og þangað var náð í okkur og við keyrð aftur heim, sem sagt smalað fólki í margar litlar rútur. Þegar inn kom þá sáum við nú bara strax að þetta yrði nú glæsilegt en sannarlega áttum við ekki von á því sem að á eftir kom.
Þeir byrjuðu á að koma inn með indjána á 2 hestum, þessum líka risastóru hestum og svo hélt sagan áfram, spánverjarnir komu og ráku indjánana í burtu og síðan fóru innflytjendur að koma og m.a. ítalirnir með Tangóinn og þá upphófst þvílíkur tangódans þar sem að fór bæði hversdagslegur götudans (sem að var ekki hversdagslegur fyrir okkur að horfa á) og yfirstéttardans þar sem að herrarnir voru í kjól og hvítt og þær í þvílíkum glæsifötum. Þetta hélt áfram við mikinn fögnuð og síðan var hljómsveitin bara kafli út af fyrir sig, og svo komu gamlir hljóðfæraleikarar og ég get sagt ykkur eða get ekki sagt ykkur, við áttum ekki orð og Fúsi og Flor voru svo ánægð og sögðu að þau hefðu ekki farið að sjá þetta nema afþví að við vorum hér.
Jæja nú eruð þið sem að lesið þetta örugglega búin að ná ykkur í kaffi nokkrum sinnum og ég ætla bara að segja stopp núna, við ætlum að fara eitthvað út í sólina og síðan er okkur boðið í mat til föðursystur Florenciu í kvöld.
Annað kvöld leggjum við síðan af stað til New York og komum þangað kl. rúmlega 5 á þriðjudagsmorgun og við tökum okkur leigubíl í Situstudio og einn af félögum Fúsa ætlar að koma til að opna fyrir okkur( um kl. 7 að morgni þegar New York er að vakna) þannig að við getum skilið farangur okkar eftir þar og við bara komum okkur síðan niður á Manhattan og vonandi verður bara veður til að við getum sprangað um í Central Park en á þriðjudagskvöldið fljúgum við síðan heim og ættum því að vera heima á miðvikudagsmorgun.
Mér finnst óralangt síðan við vorum á Íslandi, en þegar maður upplifir svona margt á einum mánuði er þetta eins og margar utanlandsferðir og þó að tíminn sé í sjálfu sér fljótur að líða, þá samt finnst mér ég vera búin að vera hér í marga mánuði.
Hafið góðan sunnudag og við hlökkum til að koma heim og fara að vinna úr þessu öllu sem að við erum búin að upplifa.
Bestu kveðjur héðan frá Buenos Aries.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Það heldur áfram ævintýrið ykkar heldur betur! Er að klikkast á náttúrufræðilestrinum og gengur því ákaflega hægt. Strákarnir eru úti í spæjaraleik með Arnari og ætla svo að skreppa til Kristínar Völu á eftir að horfa á Tomasínu.
Ólöf Breiðfjörð (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 14:18
ÆÆ elsku kerlingin mín, þú veist hve grunnt er á samviskubiti mínu og ég hefi bara svei mér þá samviskubit að vera hér í ævintýrunum, en er þó núna að reyna að pakka í tösku nr. 2 og við tókum allt of mikið með okkur að heima og því er þetta svolítið púsl, en nú ætla ég að hætta í bili og við fara að koma okkur út.
xxxxxxxxxxxxxx mamma.
Jóna Sigríður Kristinsdóttir, 29.4.2007 kl. 15:27
Þið kaupið ykkur bara aðra ferðatösku!
XXX Kristín Vala og bumbubúinn
Kristín Vala (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 21:00
Þetta er nú búin að vera alveg yndisleg lesning Jóna mín og það get ég sagt þér að ég hef fræðst heilmikið um Argentínu eftir skrifin þín hér. Mikið rosalega hefur þetta verið tilkomumikil þessi tangósýning.
Og já, við Íslendingar erum ekki enn búin að læra að pakka niður þó við teljum okkur vera orðin býsna veraldarvön - erum oft á tíðum að taka fataskápinn með og höldum að allur okkar fatnaður sé alveg ómissandi akkurat í þessa ferð.
En haldið áfram að njóta og góða ferð heim.
Hafdís Jónsteinsdóttir (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 21:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.