25. apríl

Jæja komið þið sæl öll sömul.  Nú er kl. að verða 23.00 og það er 25. apríl.  Fyrir 37 árum vorum við Raggi í Grillinu á Hótel Sögu að borða og fórum á eftir í Sigtún þar sem að Nasa er núna.  Við vorum að fagan því að fyrr um daginn settum við upp hringana.  Við eigum sem sé 37 ára trúlofunarafmæli í dag.  Þar sem að við erum alltaf alla daga að hafa það gaman og gott, var þessi dagur svo sem ekkert öðruvísi nema að því leiti að ég sagði Ragga hvaða dagur væri þegar við stóðum á gangstétt við eina af breiðgötunum hér, á leiðinni í einn af okkar löngu göngutúrum og hann rak mér rembingskoss.  Það virtist ekki koma neinum á óvart, enda hegðar fólk sér hér allavega.

Við héldum áfram göngunni og stefnan tekin á fræga kirkju sem að heytir Iglesia del  Socorro og er fræg fyrir að mikið af frægu fólki hefur gift sig í henni, en enn frægari fyrir sögu stúlku að nafni Camila og prestsins hennar sem að féllu hugi saman og þau flúðu en náðust og voru tekin af lífi þrátt fyrir að hún ætti von á barni þeirra.  Um þessa sögu var gerð myndin Camila sem  að árið 1985 var tilnefnd til Oscars verðlauna sem besta erlenda myndin.  Eftir að hafa skoðað þessa kirkju fórum við á fallegt kaffihús á hinu horninu sem ber nafn kirkjunnar og fengum okkur kaffi og heita samloku.  Við héldum síðan göngutúrnum áfram og gengum í 3 klukkutíma í góðu veðri en þó því kaldasta hér síðan við komum, bara 12 gr. hiti og sólarlaust.

Í gær keyptum við okkur alveg frábæra bók sem að er um fræg hornhús Buenos Aries, þar komumst við t.d. að því að í gær þegar við fórum á kaffihús með foreldrum og frænku Florenciu, völdum við án þess að vita uppáhalds kaffihús leikarans Roberts Duvall en hann segir að þetta kaffihús sé það besta í veröldinni, og þar hafið þið það.  Það eru þarna kaffihús hlið við hlið og á milli þeirra er gúmmítré sem að var plantað árið 1878 og nær orðið yfir í það minnsta 3 kaffihúsanna.

Á morgun er spáð sól aftur og á að vera sól alveg fram yfir helgi svo langt sem spáin nær, svo við hugsum okkur gott til glóðarinnar og ætlum að fara af stað á okkar gúmmískóm og njóta lífsins.

Ég sendi ykkur nokkrar myndir í Argentínumöppuna.  Góða nótt öll sömul og ég vona að ylurinn sem að Siggi Stormur spáir á Norðurlandi nái til ykkar líka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með trúlofunarafmælið!

 XXX Kristín Vala

Kristín Vala (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 09:16

2 Smámynd: Ár & síð

Þið hafið nú örugglega ekki gert ráð fyrir því á sínum tíma að halda upp á þetta trúlofunarafmæli í Argentínu. Gaman hvernig allt veltist.
Bestu kveðjur úr Njörvasundinu.

Ár & síð, 26.4.2007 kl. 23:44

3 Smámynd: Jóna Sigríður Kristinsdóttir

Mikið rétt Matthias, hahahhaha ef að einhver hefði hvíslað því að okkur í Sigtúni i gamla daga þegar við sátum þar með vinum okkar Ernu og Sæma að við yrðum eftir 37 ár í Buenos Aries, ég held að það hefði verið svolítið fjarlægt.

Bestu kveðjur héðan frá Argentínu.

Jóna Sigríður Kristinsdóttir, 27.4.2007 kl. 01:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband