Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Friðarsúlan

Nú er haustið um það bil að koma með sínum sjarma og þá gefur maður sér kanske tíma til að taka upp þráðinn frá því í vor.

Mér var litið út um eldhúsgluggann í kvöld og sá að það var búið, reyndar í tilraunaskini, að kveikja á friðarsúlunni í Viðey.  Þegar umræðan um þessa friðarsúlu fór af stað leist mér ekki sérstaklega vel á fyrirbærið en ég verð að segja að þetta ljós gladdi auga mitt í kvöld þar sem að það skein í gegn um rigningarsuddann.  Ég held að ég verði bara mjög sæl með að sjá þessa ljósasúlu út um eldhúsgluggann minn hér í Hlíðunum og Perluna mína út um stofugluggann.  Kanske er ég svona glysgjörn eða ég er náttúrulega fædd í sama stjörnumerki og John Lennon.


Hvítasunnuhelgin

Jæja nú fékk ég réttar upplýsingar og kom slides myndum í gagnið.  Ég mátti til með að setja nokkrar myndir frá helginni inn á.  Við vorum afskaplega stolt í gær þegar Ólöf náði þeim áfanga að útskrifast úr MH.  Skólanum sem að hún byrjaði nám í fyrir næstum 20 árum en tók sér síðan hlé til að fara með Gunnari út í heim og snéri sér í byrjun alfarið að músikinni.  Hún ákvað síðan þegar hún var búin að búa í útlöndum í 15 ár og eignast 3 stráka að taka upp þráðinn og er búin að standa sig afskaplega vel að klára þetta á skömmum tíma með öllu því sem að hún hefur að gera.  Þetta var sem sagt stór stund.  Gunnar var fjarri góðu gamni, á fullu í Þýskalandi að æfa fyrir Meistarasöngvana.  Ólöf ákvað að vera því ekki með neina stórveislu, en sannarlega var þetta skemmtileg veisla fyrir okkur foreldrana, synina og Kristínu Völu litlu systur og Braga mág.  Fúsi og Florencia náttúrulega líka fjarri að sinna sinni vinnu í Argentínu.  Þær kíktu nú samt aðeins inn tönturnar hennar með blóm og vínflösku og síðan kom Gugga aðeins, og nánast endalaust  af blómvöndum.  Þetta var fallegur og skemmtilegur dagur.  Ólöf er síðan að byrja nám í Þjóðfræði í Háskóla Íslands í haust.  Hún ætlar svo til hans Gunnars síns núna í byrjun júní og við amman og afinn verðum með strákana okkar 3.

Það var gaman að Bragi skildi vera með okkur en vegna slæms veðurs norður í landi gat hann komið í bæinn og eytt nokkrum dögum með Kristínu sinni en þau eiga von á barni um mánaðarmót október/nóvember.  Hann fer síðan aftur að fljúga með ferðamenn á Norðurlandi eftir helgina.

Í dag fórum við í göngutúr í Öskjuhlíðina með Ólöfu, Jökli og Ragnari og tveim vinum.  Það heita víst ekki gönguferðir þegar þeir eru með, heldur ævintýraferðir og þetta var sannkölluð ævintýraferð því að hverinn var óspar á gosin og strákanir nutu sín í úðanum eftir að vera búnir að draga okkur inn á milli trjáa, helst sem minnst á hefðbundnum göngustígum.

Þetta er sem sagt búin að vera sólrík og skemmtileg helgi og heldur vonandi áfram að vera það, og hver veit nema að það verði þá önnur ævintýraferð á morgun.


Hvítasunna


Ferðin heim.


Tilraun

Going home Ég veit að þetta er pínu hlægilegt en ég verð að prufa mig áfram með þessa slides síðu.

Snjókoma

Æ svei mér þá það snjóar úti.  Við vorum að koma úr matarboði frá Heidi og Matta sem að var skemmtilegt að venju og ég fékk upplýsingar um hvernig ég gæti gert slideshow á síðunni minni og er búin að vera að reyna en ekki hefur það nú gengið ennþá.  ÉG reyni aftur á morgun.

 


Sunnudagskvöld


Skemmtilegheit í borginni

Mikið eru þessir 2 dagar búnir að vera skemmtilegir í borginni.  Ég er að tala um heimsókn risessunnar sem að ég efast reyndar orðið um að sé frönsk eftir að ég sá pabba hennar í dag.  Ég verð að að segja að ég elska að fara í bæinn þegar skemmtilegar uppákomur  lystahátíðar eru  á boðstólnum.  Þessi var þó ein sú skemmtilegasta sem að ég hefi upplifað á götum borgarinnar.  Mikið var hún falleg og flott risessan og ég held að það hafi bara allir í bænum verð afskaplega glaðir þrátt fyrir að vera í vetrarklæðnaði og sjúgandi upp í nefið í nepjunni, bæði börn sem og fullorðnir, ég vona allavega að ég sé ekki ein um að vera svona barnaleg.  Ég vona að framhaldið á þessum degi verði svo skemmtilegt, allavega spennandi hvernig sem fer því fyrst Eiríkur komst ekki áfram, þá er eins gott að kosningasjónvarpið verði spenna þessa kvölds.

Komin heim

Jæja gott fólk, við erum komin heim, og nú er bara að ljúka bloggi um þessa ferð en ég hefi nú haft svo gaman að þessum samskiptum okkar við vini og fjölskyldu að ég held að ég komi bara til með að sakna þess að setjast  niður og skrifa eitthvað.  En ég lofa, ég ætla ekki að fara að blogga um væntanlegar kosningar.

Við áttum góðan síðasta dag í Buenos Aries, veðrið eins og það gat best orðið og við bara nutum þess og sátum úti þar til að við fórum út á flugvöll um kl. 4 þann 30. april.  Við sváfum vel með pásum þó á þessu tæplega 12 tíma flugi til N.Y. og vorum komin þangað kl. 6 að morgni 1. maí.

Við tókum okkur bíl og fórum með handfarangur inn í Brooklyn og fengum að geima hann í Situstudio á vinnustofu Fúsa og félaga og snyrtum okkur til og vorum komin kl. 9 í dásamlegu veðri upp á Brooklynbrúnna og gengum yfir hana á klukkutíma og inn á Manhattan tókum við lest upp að Central Park, keyptum okkur nesti í einni af hinum skemmtilegu búðum sem að selja allt sem að mann langar í þegar maður er svangur og ný komin úr flugi.  Ég var auðvitað enn með mína glæsilegu hárgreiðslu, allt tekið upp í snúð og slöngulokka í toppnum og stúlkan sem að afgreiddi okkur spurði hvort við værum frá Grikklandi, hahahahahah ég ákvað nú að hún hlyti að hafa nýverið skoðað safn og séð styttur með konum frá Grikklandi og jú þær eru allar með hnút í hnakka og mikla lokka frám á ennið.  Við skemmtum okkur virkilega yfir þessu og fórum síðan með nestið okkar yfir í Central Park og settumst á bekk í sólinni undir tré með bleikum blómum og nutum okkar.  Við löbbuðum siðan um þennan dásamlega garð sem að er eins og vin inni í miðri New York.  Við gengum undir öllum trjánum með bleiku blómunum sem að eru í algjörum blóma núna og við gengum fram hjá ömmunum sem að voru með barnabörnin á leikvöllunum, fram hjá unglingsstráknum sem að hafði ákveðið að taka trompetinn sinn með sér í garðinn og tók æfingu sem að fólki hefur sjálfsagt líkað misvel að hlusta á, en okkur þótti það skemmtilegt.

Við gengum fram á fullorðna stórvaxna svertingjann sem að söng með sjálfum sér eins og hann væri í gamalli söngvamynd.  Síðar á göngunni sáum við að hann var komin á vinnustaðinn sinn sem að var að sjá um bátana sem að leigðir eru út á stóru vatni í garðinum.  Við gengum líka fram á ungan listmálara sem að var með trönurnar sínar og svona get ég endalaust haldið áfram, alla skokkarana, hljóðreiðamennina og bara alla þá flóru af fólki sem að kemur í þennan garð á hverjum degi. 

Eftir klukkutíma göngu þá fórum við að huga að því að komast upp á Broadway til að kaupa gallabuxur á hann Glóa okkar, og fundum þær eftir töluvert labb sem að fylgir því að kíkja aðeins í búðir í þessari stórborg.  Við ákváðum svo að koma okkur bara aftur til Brooklyn og tókum lestina sem að fer til Dumbó sem að er svæðið sem að Situstudio er í, og þar fórum við á skemmtilegt kaffihús sem að er mjög í anda allra þeirra ungu hönnuða sem að eiga  sér vinnustofur í þessu hverfi.  Fórum síðan aftur upp i Situ og spjölluðum við strákana sem að fannst gott að fá okkur í heimsókn og tóku vel á móti okkur.

Við fórum síðan með bíl út á flugvöll, tékkuðum okkur inn hvíldum lúin bein áður en að farið var út í vél.  Flugið gekk vel heim og Ólöf beið okkar á flugvellinum og það var  gott að koma heim og hitta strákana okkar hér á neðri hæðinni og þeir ósköp glaðir að fá ömmu og afa heim.   Það var gaman að sjá litlu kúluna á Kristínu Völu sem að var ekki sjáanleg fyrir mánuði síðan þegar við fórum.

Nú byrjar rútínan aftur, sem að er að sjálfsögðu nauðsynleg til þess að maður njóti svona ferðalaga eins og við erum búin að vera í.

ÉG þakka öllum sem að hafa sent okkur kveðjur í gegn um þetta blogg og á e-meilum og að lokum ætla ég að senda örfáar myndir frá vorinu í New York.

Bestu kveðjur frá okkur hér í Úthlíðinni.

 


Lestarferð, undirgöng og Tangó

Góðan dag öll sömul.  Í gær þegar ég skrifaði á síðuna þá hugsaði ég með mér, tja nú fer ég að hætta þessu, fólk hlýtur að vera búið að fá leið á mér, og við  búin að sjá svo margt að borgin getur ekki haldið áfram að koma okkur á óvart.  En jú, dagurinn í gær sannaði það. 

Við fórum um hádegi á flakk og byrjuðum á því að fara á kaffihús sem að sýndar eru myndir frá í þessari frábæru bók minni um fræg horn Buenos Aries.  Þetta kaffiús stendur jú á einu af þessum hornum og heitir Las Violetas. Krakkarnir höfðu aldrei heldur komið á þetta kaffihús, ekki einu sinni Florencia.  Við urðum frá okkur numin og þið sjáið það nú kanske á nýju myndunum í Argentínu albúminu.  Skrautið og glæsileikinn er stórkostlegur og það er eins og maður detti inn í gamla daga því að þjónarnir umgangast fólkið sem að þarna kemur inn eins og hefðarfólk. ÉG hefi aldrei séð jafn mikið af flottum kökum og svo var hægt að kaupa líka kökur þarna til hliðar til að taka með heim og sannarlega hefði ég viljað það en við ákváðum að fá okkur disk með úrvali staðarins, bæði samlokur og kökur sem að var síðan skipt í bróðerni á milli.  Við fórum södd og sæl út eftir að hafa tekið töluvert af myndum.

Leið okkar lá í elstu neðanjarðarlest Buenos Aries sem að er lína nr. 1.  Það var upplifun nr. 2 þann daginn, vögnunum hefur verið haldið í upphaflegu formi á þessari línu og þeir eru allir úr harðviði, bara sannkölluð trélest.  Allt inni í vögnunum er eins og þeir upphaflega voru, skrautið á stöngunum sem að fólkið heldur sér í, ljósakúplarnir upphaflegir og svo getur maður rennt niður trégluggunum , hreint og beint ótrúlegt að ferðast með þessu, mér fannst ég komin í Harry Potter svei mér þá.

Við fórum úr lestinni við stjórnarráðsbygginguna sem að ég held að ég hafi sent ykkur einhvertíma mynd af og Florencia átti ekki orð að við værum búin að vera á öllum þessum stöðum, sem að við löbbuðum á leið okkar niður að "Ljósaborginni" en það var næsta upplifun. 

Þar fórum við í skoðunarferð með leiðsögukonu og Florencia þýddi allt jafnóðum fyrir okkur. 

Ljósaborgin er samtengdar byggingar sem að standa við 4 götur sem sagt í ferhyrning, þær kallast ljósaborgin því að þessar byggingar voru miðpunktur þekkingar í borginni.

Trúboðar reystu þessar byggingar 1661 og t.d. er ennþá virtasti háskóli borgarinnar í þessum byggingum.  Við fórum hringinn og okkur var sögð saga þeirra og síðan í undirgöng þar undir en undir Buenos Aries liggja undirgöng frá þessum tíma sem að í raun enginn veit hvaða tilgang höfðu, giskað er á undankomu leiðir eða jafnvel smyglara leiðir, svei mér ef að ég var bara ekki komin í Æfintýrabækurnar hennar Enit Blyton.

En þegar ég tala um Enit Blyton, vitið þið hver bjó hér á hæðinni fyrir ofan okkur, enginn annar en hinn frægi Vicktor Borges, hann kanske sat hér í herberginu fyrir ofan mig og skrifaði.  Á einni af myndunum frá Tangó höllinni er stytta af honum, það var svo fyndið að sjá í gær að svo margir létu taka af sér myndir sytjandi í stólnum við hliðina á honum.

Jæja já það er það gærkveldið.  Við fórum sem sagt á Tangó sýninguna og ég eiginlega get ekki lýst því með neinum orðum hvernig kvöldið var.  Við fórum á Hótel hér rétt fyrir ofan og þangað var náð í okkur og við keyrð aftur heim, sem sagt smalað fólki í margar litlar rútur.  Þegar inn kom þá sáum við nú bara strax að þetta yrði nú glæsilegt en sannarlega áttum við ekki von á því sem að á eftir kom.

Þeir byrjuðu á að koma inn með indjána á 2 hestum, þessum líka risastóru hestum og svo hélt sagan áfram, spánverjarnir komu og ráku indjánana í burtu og síðan fóru innflytjendur að koma og m.a. ítalirnir með Tangóinn og þá upphófst þvílíkur tangódans þar sem að fór bæði hversdagslegur götudans (sem að var ekki hversdagslegur fyrir okkur að horfa á) og yfirstéttardans þar sem að herrarnir voru í kjól og hvítt og þær í þvílíkum glæsifötum.  Þetta hélt áfram við mikinn fögnuð og síðan var hljómsveitin bara kafli út af fyrir sig, og svo komu gamlir hljóðfæraleikarar og ég get sagt ykkur eða get ekki sagt ykkur, við áttum ekki orð og Fúsi og Flor voru svo ánægð og sögðu að þau hefðu ekki farið að sjá þetta nema afþví að við vorum hér.

Jæja nú eruð þið sem að lesið þetta örugglega búin að ná ykkur í kaffi nokkrum sinnum og ég ætla bara að segja stopp núna, við ætlum að fara eitthvað út í sólina og síðan er okkur boðið í mat til föðursystur Florenciu í kvöld. 

Annað kvöld leggjum við síðan af stað til New York og komum þangað kl. rúmlega 5 á þriðjudagsmorgun og við tökum okkur leigubíl í Situstudio og einn af félögum Fúsa ætlar að koma til að opna fyrir okkur( um kl. 7 að morgni þegar New York er að vakna) þannig að við getum skilið farangur  okkar eftir þar og við bara komum okkur síðan niður á Manhattan og vonandi verður bara veður til að við getum sprangað um í Central Park en á þriðjudagskvöldið fljúgum við síðan heim og ættum því að vera heima á miðvikudagsmorgun.

Mér finnst óralangt síðan við vorum á Íslandi, en þegar maður upplifir svona margt á einum mánuði er þetta eins og margar utanlandsferðir og þó að tíminn sé í sjálfu sér fljótur að líða, þá samt finnst mér ég vera búin að vera hér í marga mánuði.

Hafið góðan sunnudag og við hlökkum til að koma heim og fara að vinna úr þessu öllu sem að við erum búin að upplifa.

Bestu kveðjur héðan frá Buenos Aries.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband