Nútíma þvottadagur, gamaldags uppþvottur

Ég ákvað í gær að hafa "þvottadag" í dag.  Ekki er það nú svo að það hafi safnast upp óhóflegur þvottur, bara í eina hvíta vél og aðra mislita.  En mér varð hugsað til hve tímarnir hafa nú breyst síðan ég var á aldri strákanna minna.  Þá átti ég heima í blokk sem að í voru 3 stigahús og að mig minnir 24 íbúðir til samans.  Það var eitt stórt þvottahús með mikilli vél og þeytivindu sem að þótti luxus og baðker á miðju gólfi til að leggja í bleyti í áður en að þvotturinn var tekin með stóru priki og færður inn í stóru stál tromluna sem að var svo gaman að fylgjast með þeyta til þvottinum fram og til baka og sápulöðrið spýttist út um götin á tromlunni.  Síðan þegar allt hafði verið skolað og sett í þeytivinduna var farið með það í næsta stóra herbergi sem að var þurrkherbergi og daginn eftir í það þriðja þar sem að var risastór strauvél stórt borð til að leggja stóru stykkin á til að brjóta saman og meira að segja hillur til að leggja allt frá sér í.   Ég man að það var pínu tilhlökkunarefni fyrir okkur systurnar sem að upplifðu þetta, að vera að snúast í kring um hana mömmu og hjálpa til þennan dag, því að það var mikill þvottur, hver íbúð fékk sinn þvottadag einu sinni í mánuði, getið þið ímyndað ykkur.  En nú er öldin önnur og nú hendir maður í vélar og þurrkara á milli annarra verka. 

Hins vegar sé ég fram á gamaldags uppvask á næstu dögum þar sem að uppþvottavélin neitaði í gærkveldi að fara í gang, ekki nema að ég geti tjónkað eitthvað við hana í dag, en ég kvíði svo sem ekki að fara að vaska upp á gamla móðinn, það er ágætt að hugsa og spá í lífið og tilveruna við þá iðju.

Í morgun var ég að setja í íþróttatösku Ragnars litla, gleymdi því í gærkveldi, og var að flýta mér, allt annað var tilbúið og ég finn töskuna og fína íþróttabolinn, handklæðið en fannst eitthvað skrítnar buxurnar sem að voru í bunkanum (eftir sjálfa mig).  Ég spyr Ragnar "eru þetta leikfimisbuxurnar þínar"  Hahahahaha hann hló að ömmu sinni og sagði "nei þetta eru sundbuxurnar hans Jökuls"  og svo voru bara buxurnar í pokanum.  Allt var klárt á réttum tíma og þeir skokkuðu í skólann saman félagarnir, og Ragnar alveg sérstaklega ánægður í nýju stígvélunum.

Það er ótrúlegt núna þegar smá gola feykir til trjánum fyrir utan að það skuli vera von á mikilli lægð núna um hádegisbil, kanske að hún hafi ákveðið að fara fram hjá, það kemur í ljós, ég vona allavega að ég komist á milli húsa með Jökul í dag, fyrst í tónfræðina og svo í hóp-fiðlutíma.

En nú er föstudagur á morgun og helgin bara að koma, tíminn flýgur áfram enda mikið að gera og svei mér þá ég hlýt að missa svona 2-3 kíló á þessum 17 dögum, ekki veitir nú af, en þrátt fyrir að hafa mikið að gera á hverjum degi njótum við afi samvistanna við drengina og það er hreint ekki leiðinlegt að hugsa um þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband