12.9.2007 | 22:53
Blautar tær og sjóræningjastígvél
Jæja þá er þessi blauti dagur á enda, en von á öðrum á morgun. Ég horfði á eftir litlu drengjunum mínum labba í skólann í morgun í þvílíkri rigningu og vonaði bara að bleytan næði ekki inn að beini.
Ég fór til Kristínar og Braga að hjálpa Braga að reka endahnútinn á parketlögnina og mikið vorum við fegin þegar hann var búin að negla síðustu listana á eldhúsgólfið. Það komu þvílíkar dembur á meðan ég var hjá þeim og alltaf sagði ég, æææ ég vona að strákarnir séu ekki úti í frímínútum núna, ég hafði verulegar áhyggjur af þeim. Ég fór heim til að taka á móti þeim og undirbúa Jökul í fiðlutíma og var í glugganum þegar þeir komu hoppandi og skoppandi yfir túnið við Kennaraháskólann. Þeir voru ekki svo blautir og ástæðan var að börnunum var ekki hleypt út í frímínútum vegna rigningarinnar. Hins vegar var Ragnar minn ansi blautur í annan fótinn og við fórum og keyptum á hann ný stígvél, hann var verulega ánægður með þau, þessi fínu sjóræningjastígvél úr Steinari Waage. Við fórum síðan að versla í Bónus og á leiðinni út í bíl naut hann sín og hoppaði og skoppaði í sem flesta polla.
Þegar ég var búin að ganga frá vörunum fórum við Jökull í fiðlutíma og Ásdís ætlar að láta hann spila á tónleikum laugardaginn 22. september, sama dag og frumsýningin er hjá Gunnari, það fannst honum sniðugt.
Ég verð sem sé heldur betur að standa mig í stykkinu að láta hann æfa vel og vandlega, ekki að það sé neitt vandamál, hann er svo samviskusamur og ég hlusta á diskinn með músíkinni og er þá betur með á nótunum.
Við rétt sluppum heim áður en að halda átti á kóræfingu hjá Drengjakórnum og vorum komin um kl. 5, en þá var ekki kóræfing vegna veikinda kórstjóra, svo að við fórum og létum laga gleraugun hans Ragnars og ég bara framkvæmdi að panta mér tíma hjá augnlækni í leiðinni, búin að trassa það allt of lengi.
Á morgun er svo tónfræðitími og hóptími hjá Jökli og ég verð að segja það að ég bara dáist að henni Ólöfu minni að komast yfir þetta allt saman og vera byrjuð í háskólanámi í ofanálag.
En jæja ég ætla að skutlast í rúmið ekki veitir af að safna orku fyrir nýjan dag með hressum strákum sem að hafa mikið að gera.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju að vera búin að leggja parketið. Við hlökkum mikið til að fá að koma að skoða það og líka nýja eldhúsið á Bergstaðastrætinu.
Ég er mjög impóneruð yfir öllu því sem þú kemur mikið í verk. Dagurinn er svo fljótur að líða hjá mér. Sérstaklega eftir ég fékk Makkann.
Heidi Strand, 12.9.2007 kl. 23:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.