2.5.2007 | 19:56
Komin heim
Jæja gott fólk, við erum komin heim, og nú er bara að ljúka bloggi um þessa ferð en ég hefi nú haft svo gaman að þessum samskiptum okkar við vini og fjölskyldu að ég held að ég komi bara til með að sakna þess að setjast niður og skrifa eitthvað. En ég lofa, ég ætla ekki að fara að blogga um væntanlegar kosningar.
Við áttum góðan síðasta dag í Buenos Aries, veðrið eins og það gat best orðið og við bara nutum þess og sátum úti þar til að við fórum út á flugvöll um kl. 4 þann 30. april. Við sváfum vel með pásum þó á þessu tæplega 12 tíma flugi til N.Y. og vorum komin þangað kl. 6 að morgni 1. maí.
Við tókum okkur bíl og fórum með handfarangur inn í Brooklyn og fengum að geima hann í Situstudio á vinnustofu Fúsa og félaga og snyrtum okkur til og vorum komin kl. 9 í dásamlegu veðri upp á Brooklynbrúnna og gengum yfir hana á klukkutíma og inn á Manhattan tókum við lest upp að Central Park, keyptum okkur nesti í einni af hinum skemmtilegu búðum sem að selja allt sem að mann langar í þegar maður er svangur og ný komin úr flugi. Ég var auðvitað enn með mína glæsilegu hárgreiðslu, allt tekið upp í snúð og slöngulokka í toppnum og stúlkan sem að afgreiddi okkur spurði hvort við værum frá Grikklandi, hahahahahah ég ákvað nú að hún hlyti að hafa nýverið skoðað safn og séð styttur með konum frá Grikklandi og jú þær eru allar með hnút í hnakka og mikla lokka frám á ennið. Við skemmtum okkur virkilega yfir þessu og fórum síðan með nestið okkar yfir í Central Park og settumst á bekk í sólinni undir tré með bleikum blómum og nutum okkar. Við löbbuðum siðan um þennan dásamlega garð sem að er eins og vin inni í miðri New York. Við gengum undir öllum trjánum með bleiku blómunum sem að eru í algjörum blóma núna og við gengum fram hjá ömmunum sem að voru með barnabörnin á leikvöllunum, fram hjá unglingsstráknum sem að hafði ákveðið að taka trompetinn sinn með sér í garðinn og tók æfingu sem að fólki hefur sjálfsagt líkað misvel að hlusta á, en okkur þótti það skemmtilegt.
Við gengum fram á fullorðna stórvaxna svertingjann sem að söng með sjálfum sér eins og hann væri í gamalli söngvamynd. Síðar á göngunni sáum við að hann var komin á vinnustaðinn sinn sem að var að sjá um bátana sem að leigðir eru út á stóru vatni í garðinum. Við gengum líka fram á ungan listmálara sem að var með trönurnar sínar og svona get ég endalaust haldið áfram, alla skokkarana, hljóðreiðamennina og bara alla þá flóru af fólki sem að kemur í þennan garð á hverjum degi.
Eftir klukkutíma göngu þá fórum við að huga að því að komast upp á Broadway til að kaupa gallabuxur á hann Glóa okkar, og fundum þær eftir töluvert labb sem að fylgir því að kíkja aðeins í búðir í þessari stórborg. Við ákváðum svo að koma okkur bara aftur til Brooklyn og tókum lestina sem að fer til Dumbó sem að er svæðið sem að Situstudio er í, og þar fórum við á skemmtilegt kaffihús sem að er mjög í anda allra þeirra ungu hönnuða sem að eiga sér vinnustofur í þessu hverfi. Fórum síðan aftur upp i Situ og spjölluðum við strákana sem að fannst gott að fá okkur í heimsókn og tóku vel á móti okkur.
Við fórum síðan með bíl út á flugvöll, tékkuðum okkur inn hvíldum lúin bein áður en að farið var út í vél. Flugið gekk vel heim og Ólöf beið okkar á flugvellinum og það var gott að koma heim og hitta strákana okkar hér á neðri hæðinni og þeir ósköp glaðir að fá ömmu og afa heim. Það var gaman að sjá litlu kúluna á Kristínu Völu sem að var ekki sjáanleg fyrir mánuði síðan þegar við fórum.
Nú byrjar rútínan aftur, sem að er að sjálfsögðu nauðsynleg til þess að maður njóti svona ferðalaga eins og við erum búin að vera í.
ÉG þakka öllum sem að hafa sent okkur kveðjur í gegn um þetta blogg og á e-meilum og að lokum ætla ég að senda örfáar myndir frá vorinu í New York.
Bestu kveðjur frá okkur hér í Úthlíðinni.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Verið hjartanlega velkomin heim og ég er næsta handviss um að vinnuveitandi verður fegin að þú skulir vera hætt þessu flakki
Það er búið að vera yndislegt að lesa bloggið þitt Jóna mín og fá að fylgjast svona með ykkur, tala nú ekki um allar myndirnar sem eru margar hverjar alveg stórkostlegar.
Við sjáumst von bráðar en þar til þá - be cool !
Hafdís Jónsteinsdóttir (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 19:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.