17.4.2007 | 00:17
Rólegur dagur
Komið öll blessuð og sæl og gaman var að lesa í kvöld allar athugasemdinar. ÉG má líka til með að segja að við fáum líka e-mail frá henni Völu frænku, sem að kallar mig "Jónu systur yngri" sem að mér finnst hinn mesti heiður.
Bréfin hennar eru engu lík og ættu sannarlega að vera hér svo að þið öll gætuð líka lesið. Hún kemur alveg sérdeilis vel fyrir sig orði hún Vala frænka.
Í dag erum við svo sem bara búin að vera í rólegheitunum eða þannig. Við fórum t.d. ekki út með myndavél og því fáið þið ekki nýjar myndir í dag. Einu myndirnar sem að voru teknar voru 2 myndir af fótleggjum mínum, og mér dettur ekki í hug að setja þær á vefinn. Ekki var ástæðan sú að Ragnari findist þeir svo fagrir að hann yrði að mynda þá ( þó að honum finnist það nú yfirleitt) en ég er illa farin af moskitobiti, leggirnir eru bara eins og hálfgerðir baunapokar en sem betur fer klæjar mig ekki mjög mikið en við ákváðum að fara í dag og finna á mig buxur, en eins og þið vitið þá eru nú pilsin frekar mín hlið. Við fórum nú samt fyrst í apotek og fundum áburð fyrir mig sem að ég vona að verði farin að virka á morgun.
Við löbbuðum í Kringluna sem að við þekkjum nú orðið glettilega vel og alltaf sér maður eitthvað nýtt sem að manni langar í, en buxur voru málið í þetta sinn. ÉG fann buxur en það voru hálfgerðar hvartbuxur þannig að ég þurfti sokka líka, því ekki má skína í bert á mér núna á meðan þessar flugur sækja svo í mig. Ekki er nú mikið úrval af hnésokkum, hér nema bara svona nælon eins og við þekkjum heima en við fundum nú samt sokka að vísu röndótta en ég lét mig hafa það og keypti meira að segja til skiptanna í 2 litum.
Við komum við i Dicko þið vitið stórmarkaðnum okkar á leiðinni heim og okkur var orðið ansi heitt, því hitinn var mikill þó að sólin væri á bak við ský, við versluðum í matinn og svona ýmsar nauðþurftir og fórum síðan heim og ég í buxurnar, röndóttu sokkana og röndóttan síðermabol sem að ég keypti í Marimekkó á Laugavegi áður en að við fórum. ÆÆÆ við Raggi fórum bara að skellihlægja, buxurnar eru frekar víðar svona pokóttar og þið getið ímyndað ykkur hvernig ég leit úr, það var bara eins og ég væri að fara að skemmta hér niður á einhverju torginu svei mér þá. Ég gat bara ekki hugsað mér að fara svona út svo að ég valdi bara svart sítt pils sem að ég keypti mér í síðustu viku og sokkana og röndótta bolinn og vonaði að flugurnar létu mig í friði, sem að þær reyndar gerðu.
Við fórum síðan aftur af stað ég og hann Raggi minn og fórum og bara fengum okkur rauðvín á dásamlegum stað hér rétt hjá enda klukkan orðin 6, við nutum okkar í þessum hita og sátum í klukkutíma þarna. Við röltum síðan heim og elduðum okkur fljótlegan mat með örþunnum nautakjöts sneiðum og grænmeti og ætlum að gera svoleiðis fyrir krakkana en þau fóru strax eftir vinnu að kenna í háskólanum og koma ekki fyrr en um 11 heim.
Raggi sagðist ekki ætla oftar myndavélarlaus út úr húsi því að auðvitað er endalaust myndefni jafnvel þó að maður haldi að maður sé bara að fara í ómerkilegan göngutúr.
Afinn hló mikið þegar hann heyrði af nafna sínum, en það má segja að þeir séu sannarlega á kafi í fornum ævintýrum bræðurnir Jökull og Ragnar. Við hlógum þegar sagan frá Palermó rifjaðist upp fyrir okkur. ÆÆÆÆ Ólöf er stundum eins og móðir sín, lendir í skemmtilegum ævintýrum, þó að þau séu ekki endilega skemmtileg rétt á meðan á ósköpunum stendur, en samt það fer nú eftir því hvort maður er að pissa í sig eða ekki.
Bestu kveðjur til ykkar allra og jú Erna nú ætla ég að bjóða Ragga upp í Tangó og helst á "Börn náttúrunnar skónum".
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Ég var minnt á lýsið í morgun, það má víst ekki gleymast. Ragnar bað mig að kaupa Omega3-6-9 í dag því hann sagðist vera viss um að hann hafi verið svona orðljótur við Brynju í gær vegna þess að þeir hafa ekki tekið Omega í ofanálag við lýsið í rúma viku. Ég verð því að fara og kaupa Omega svo ekki komi til frekari óþekktar.
Ólöf Breiðfjörð (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 09:14
Hahahahah hann er ótrúlegur þessi drengur, já það er víst eins gott að taka lýsið sitt reglulega, það er jú allra meina bót og ekki verra að vita að það hefur góð áhrif á geðslagið líka.
Jóna Sigríður Kristinsdóttir (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 11:40
Gyða Kristinsdóttir (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 11:44
Já það er skítakuldi hérna á Fróni. Veðrið var ansi fallegt í morgun en algjört gluggaveður. Ég er annars sammála Ollu með dýrðlinginn, þið ættuð að athuga hvort þið finnið ekki einhverjar styttur.
XXX Kristín Vala
Kristín Vala (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 15:14
þetta kallar maður sko að lifa lífinu Jóna mín, ég sé það að ykkur hjónakornunum er það fyrir bestu að taka tangó námskeið að hausti svo þið verðið orðin vel fær fyrir næstu ferð. Þú verður eiginlega að gera það fyrir okkur að skvetta inn einni mynd af þér í fallegu kvartsbuxunum - já bara allri munderingunni ;-)
Hvernig fór annars leikurinn
Hafdís Jónsteinsdóttir (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 16:32
Við urðum svo inspíreruð af öllum þessum matarlýsingum að við spanderuðum á okkur nautasteik í kvöld
Heidi Strand, 17.4.2007 kl. 20:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.