15.4.2007 | 12:26
Ferðin til Uruguay
Góðan daginn öll sömul. Jæja þá var ég að vakna hress og kát eftir gærdaginn, en við vorum svolítið þreytt þegar heim var komið. Þessi ferð til Uruguay var alveg yndisleg. Við fórum með skipi kl. 9 í gærmorgun, ég hélt að við værum að fara með svona Herjólfi eða einhverju svoleiðis, nei þetta var bara risa skip upp á 4 hæðir með lyftu og verslunum (duty free) börum og bakaríum. Það voru bara eftir miðar á 1. class þegar við komum og við vorum mjög fegin því að við höfðum svo svaklega fína svona eins og lacyboy stóla til að sofa í og við sofnuðum í klukkutíma eftir að hafa fengið okkur kaffi og með því á veitingastaðnum þarna á 4. hæðinni. Þetta var hin þægilegasta ferð og við komum hress í höfn í Coloniu og fórum strax að finna gamla bæinn þar og þar vorum við bara allan daginn. Þetta eru fullt af litlum götum sem að liggja þvers og kruss ( eins og götur gera nú yfirleitt) og kyrrðin og friðsældin er þvílík þarna að það liggur við að maður hvísli.
Þegar við vorum að komast að mörkum gamla bæjarins þá var farið að heyrast í þrumum og við sáum að það stefndi í mikið flóð, vorum spæld því að okkur datt ekki í hug að þetta mundi ganga yfir á klukkutíma. Við fundum þetta líka glæsliga veitingahús sem að var svona djazzklúbbur og þar komum við okkur notarlega fyrir og fengum okkur að borða og kaldan bjór og nóg af honum eftir labbið neðan frá höfninni. Það var eins og við manninn mælt að það var eins og himnarnir opnuðust og það ringdi þvílíkt og annað eins og þrumur og eldingar, en það væsti ekki um okkur.
Eftir um það bil klukkutíma stytti upp og við fórum út og héldum áfram niður að gamla bænum og það opnaðist bara fyrir okkur nýr heimur. Allar göturnar liggja niður að þessari miklu á sem að Colonia stendur við og það virðist sem að asi umheimsins hafi aldrei komið þarna við, húsin lágreist í fallegum litum og fyrir flestum fallegar heklaðar gardinur og göturnar bara gerðar úr grjótinu sem að berst á land úr ánni og trén eins og maður sé í ævintýraheimi. Að labba niður að ánni þar sem að risatré bara vaxa upp úr sandinum í fjörunni, þetta var virkilega yndislegt. Þarna ferðuðust flestir um á litlum vespum en þó sá maður nú einn og einn bíl, hvort sem að þeir voru nú í notkun eða upp á skrautið. Mér skilst að spánverjar og portugalar hafi barist um þessa borg á sínum tíma, og það var eitt og annað sem að minnti á það svo sem eins og virkisveggurinn meðfram ánni og fallbyssurnar á sínum stað.
Við fórum svo að rölta okkur til baka niður á höfn eftir kvöldmat þegar var farið að dimma og keyptum okkur far með hraðskreiðara skipi til baka og aftur hélt ég að ég væri að fara bara í svona spíttbát fyrir 15 manns eða svo en nei þetta var eins og breiðþota og þernur um borð sem að báru í okkur veitingarnar, samlokur og safa og svo gátum við bara sofnað og áður en að við vissum af vakti Raggi okkur og sagði að við værum komin til Buenos Aries. Florencia beið hér eftir okkur með kertaljós og mat en hún komst ekki með, varð að klára að gera pappírsvinnu fyrir Prinston skólann en hún verður að skila því öllu inn á morgun.
Í dag ætlum við að fara öll saman í elsta hluta Buenos Aries og njóta sunnudagsis saman. Rafhlaðan úr myndavélinni er í hleðslu svo að ég geti nú haldið áfram myndatöku. Ekki veit ég hvernig maður færi að væri maður með filmuvél.
Við sendum bestu kveðjur heim til allra.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Við fórum til Bryndísar í dag. Þeim bræðrum sinnaðist útá leikvelli og lífláti var hótað, Jökull ætlaði að fara að heiman en svo fór Sturla og reddaði málunum og þeir sættust. Ég var svolítið hissa við að skoða myndirnar frá Colonia, þar eru tré með bleikum blómum einosg að vori.
Gaman að lesa um ævintýri ykkar, þessi gamli bær minnti mig á bæinn í Frakklandi, rétt hjá Lyon......andspyrnuhreyfingarbær sem er stolið úr mér hvað heitir. ´
Kv.Ólöf
Ólöf Breiðfjörð (IP-tala skráð) 15.4.2007 kl. 17:41
Ahh já, Pérouges hét bærinn. Þar fengust flatbrauð með smjöri og sykri. Þú varst veik daginn sem við Mamma fórum þangað með Gunnari. Rétt áður en það kom í ljós að þú varst ólétt af Jökli, sem var í dag hótað lífláti.
XXX Kristín Vala sem er minnugri á bæjarnöfn en systir sín.
Kristín Vala (IP-tala skráð) 15.4.2007 kl. 19:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.