Uruquai á morgun

Jæja þá er enn einn dagur að kveldi kominn og við á leið í rúmið.  Í dag erum við aftur búin að ganga okkur upp að hnjám, svei mér þá.  Veðrið hér eins og best verður á kosið og bara dásamlegt að ganga um þessa borg.  Hér eru miklar andstæður, við göngum fram hjá glæsilegum byggingum bæði í gömlum, frönskum stíl og glerturnum eins og í New York og allt þar á milli.  Við kíkjum á glugga og förum inn i glæsilegar verslanir með heimsklassa varning, en svo förum við líka inn í búðir til að kaupa okkur sokka og nærbuxur þar sem að er "búðarborð" þið munið, afgreiðslustúlkurnar fyrir innan og kúnnin fyrir framan.  ÉG sá búð sem að í glugganum var úrval af nærbuxum og sokkum og hvenær vantar mann ekki slíkt í útlöndum.  Ég fór inn og Raggi minn beið fyrir utan.  Búðin var full af hillum með litlum öskjum sem að innihéldu bæði herranærbuxur, kvennærbuxur, sokka, brjósthaldara og sv.frv.  ég náttúrulega labbaði bara um og spurði um eitt og annað og afgreiðslustúlkan þurfti að benda mér á að halda mig fyrir framan afgreiðsluborðið, hahahahahaha æææ hvernig á maður nú að átta sig á svona.  En ég fór út með þessar fínu nærbuxur og enn betri sokka. 

 Svo er annað, ég hefi verið að spá í hvort ég ætti ekki að kaupa slopp á hann Ragga minn, ekki náttslopp heldur slopp sem að eru hér til í öllum stærri súpermörkuðum en það eru sloppar fyrir þjónustustúlkur, svona eins og þið sjáið í auglýsingum í blöðum frá 1930, m.a. dökkbláir með inndregnu mitti hnepptir niður að framan og lítil blúnda til skrauts á kraganum, og svunta fylgir með, sem að er úr sama efni og sloppurinn, bridduð með sömu blúndu og kraginn.  Hér eru þjónustustúlkur og eldhússtúlkur í svona sloppum og maður sér þær á hverjum morgni í súpermarkaðnum að versla inn fyrir húsbændurna.  Raggi stakk meira að segja upp á því sjálfur hvort hann ætti ekki bara að fá sér svona slopp og vera í honum þegar Gyða systir kæmi næst í heimsókn, hún ein skilur líklega þetta djók.   En satt best að segja eru þessir sloppar snilld og hlífa sannarlega fötum þeirra sem að eru í heimilisstörfum alla daga afskaplega vel.

Eftir nokkurra klukkutíma göngutúr í miðborginni og aftur heim fengum við okkur lúr og fórum svo í sturtu og út í búð og keyptum í matinn, við sem  sagt ákváðum að elda góðan mat fyrir krakkana sem að komu heim úr vinnu kl.  hálf níu.

Við ákváðum að vera svolítið grand og hafa nautalundir og gratineraðar kartöflur með góðri sveppasósu og salati.  Þegar við komum að kjötkælinum í stórmarkaðnum vandaðist málið, allt of mikið til og ég vissi bókstaflega ekki hvað var lund, file eða bara hreinlega vöðvi í gúllas.  Ég reyndi að gera mér grein fyrir þessu með því að það dýrasta hliti að vera það besta en allt virtist á sama verði.  Það voru góð ráð dýr, ekki gat ég keypt eitthvað sem  að ætti að mallast í klukkutíma til að nota í mínútusteik.  Ég snéri mér því að einhverri manneskju sem að mér fannst líklegust til að geta tjáð sig á ensku og væri svona í útliti að hún hefði fína steik í það minnsta einu sinni í viku. Eftir nokkurt handapat og smá vangaveltur urðum við ásamt manninum hennar sem að var með henni sátt um sneiðar sem að mundu henta mér.  Þetta tókst vel og maturinn í kvöld heppnaðist afskaplega vel og við ánægð með þessa dásamlegu nautakjötssneiðar sem að kostuðu  500 kr.

Já svona er lífið hér í Argentínu.

Jæja við skrifum meira annað kvöld ef að við verðum ekki allt of þreytt eftir siglinguna frá Uruqai.

Bestu þakkir fyrir skrifin og kveðjurnar öll sömul.

Góða nótt Jóna og Raggi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hólý mólý dindórólý þetta finnst mér afskaplega skemmtilegt og vinalegt að heyra það er bara eins og Hafdís vinkona Fríðu sé skyld okkur   'Eg fann svona búðir út í Króatíu þar sem konur voru fyrir innan borð og það var einmitt nærfata og sokkabúð og ég labbaði út með nokkur pör af afskaplega ódýrum nælonpörum. En það er ekki spurning varðandi þetta með sloppinn Jóna þið fjárfestið í einum slíkum, ég hlakka til að koma til ykkar í kaffi og sjá Ragga koma til dyra í einum slíkum ég á alltaf gamla kappa frá Húsó sem ég gæti þá lánað honum svo hann sé alveg perfect, veit að vísu ekki hvernig upplitið á Móðir myndi verða . En annað láttu þér ekki bregða þó svo Vala frænka komi upp á pallborðið á blogginu þínu, mamma var búin að segja henni frá þessu, svo hringdi Vala í mig í gærkvöld mjög svo pen því hún var ekki viss hvort hún væri með rétta Gyðu í símanum en hún hafði ekki komist inn á rétta slóð, en hún hafði mikinn áhuga og reddar þessu, annars var ég að hugsa um að hringja í hana og athuga hvort þetta hefði gengið hjá henni. Hafið það gott og góða ferð til Uruqai, annars er ég hrædd um að þið farið að baula þarna úti eftir allt þetta nautakjötsát, aha. kveðja frá Sigga og Evu !

Gyða Kristinsdóttir (IP-tala skráð) 14.4.2007 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband