13.4.2007 | 01:50
Une litre coka cola
Við fórum út á lífið við Ragnar, eða þannig. Klæddum okkur uppá eins og sagt er heima. Löbbuðum niður í steikhúsagöturnar og fengum okkur steik, hahahaha það liggur við að maður verði að fara í önnur hverfi til að fá eitthvað annað en dásemdar,dúnmjúka steik, nei ég segi nú bara svona það voru líka pasta réttir og kjúklinga réttir á boðstólnum en auðvitað þegar maður er í Argentínu fær maður sér steik. Þetta var notarleg stund og lærdómsrík. Í hvert skipti sem að við höfum fengið okkur nautasteik hér í þessari borg þá er ekki verið að hella á hana sósu eða láta bakaða kartöflu mér smjöri fylgja. Ef að maður vill fá eitthvað með þá skal maður panta það sér, svo sem eins og rukola salat (eða hvernig sem að það er nú skrifað) eða smá af frönskum kartöflum. Það er pottþétt ástæðan að við Raggi komum nú heim og erum ekki að sprynga, okkur líður afskaplega vel.
Við kláruðum okkar steikur og löbbuðum heim í rólegheitunum í dásamlegu veðri, ég í stuttermapeysunni sem að ég keypti hjá stúlkunni í New York, þessari frá Euquador sem að gaf okkur öll góðu ráðin.
Á leiðnni heim er mikið af fólki sem að vantar smá aur, en er samt ekki frekt, við vorum næstum komin heim þegar lítill drengur,bara eins og hann Jökull okkar spurði hvort við vildum, kaupa rós af honum. Hann stóð með sín stóru brúnu augu og hann var með svo fallegan svip, og ég spurði hvað kostar rósin. 1 dollar sagði hann og meinti bandarískan dollar þar sem að allt úir og grúir í ferðamönnum. Við vorum ekki með neina dollara á okkur og ég spurði hve marga pesósa, og hann sagði 3. Við keyptum af honum 3 rósir og borguðum með 10 pesósum sem að eru 250 kr. og hann þakkaði svo vel fyrir að okkur fannst þessar rósir sem að nú eru komnar í vel þvegna hvítvínflösku hinn mesti fjársjóður.
Við gengum áfram ánægð með mínar rósir og Ragga mínum vantaði diet coke til að fá sér eitt Whisky glas fyrir svefninn. Við komum að einni af mörgum sjoppunum hér í nágrenninu og nú skilur enginn nema á vissum aldri. Munið þið t.d. Gyða systir og Hafdís eftir Ragga sjoppu á Laugalæk. Á kvöldin var opin lúga og dásemdirnar allar þar fyrir innan og Raggi í Raggasjoppu stóð þar á sínum hvíta slopp og afgreiddi. Hér eru sjoppurnar svona.
Við sem sagt stóðum við lúgu og Raggi minn,sagði þú byður um Kókið, þú ert svo klár í því, og ég bað um "une litre coka cola" oh ég get sagt ykkur að þetta var gaman hvort sem að þetta var nú rétt eða ekki rétt. Hann "Raggi" í "Raggabúð" skildi þetta alveg fullkomlega og kom með kók og þá áttaði ég mig á að hann Raggi minn vildi Diet og ég bara sagði "diet" og það var nú ekki málið, og þessi maður hvort sem að hann heitir nú Raggi eða Juglios sagði á sínu máli sem að við bara skildum svo vel, að það væri algjör óþarfi að vera að reyna að tala ensku eða spönsku, við skildum hvort annað fullkomlega, bara að nota hendurnar og andlitið. við fórum afskaplega ánægð úr lúgunni hjá honum " Ragga í Raggabúð" með okkar Dietcoke heim og fannst við hafa eignast nýjan vin sem að gat bara hlegið með okkur vegna tungumálaörðuleika.
Við bjóðum góðrar nætur og skrifum meira á morgun.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Blessuð öll sömul ! Jæja mikið gaman að sjá myndir Jóna, þú ert bara fín með krullurnar miklu, minnir mig svolítið á mannfræðing sem er í vettfangsferð að kynna sér argentíska menningu Svo hefði ég verið til í þennan skólabíl handa okkur frænkum í Grimsby, það hefði verið snilld að keyra um bæinn í einum svona. Jæja ætla að drífa mig með ostaköku í vinnuna svona að gamni því ég er að fara í frí eftir þennan dag, svona til að sleikja þessar elskur upp á Heilsubælinu Var með saumaklúbb í gærkvöld sem var mjög svo fjörugur og skemmtilegur og mikið rætt um allt milli himins og jarðar. Hafið það gott og góða helgi kveðja Gyða systir í Funa.
Gyða Kristinsdóttir (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 09:39
Ekki eru 250 krónur mikið fyrir þrjár rósir en þetta er víst mikill peningur þarna úti í Argentínu, sérstaklega fyrir svona lítinn snúð.
Hér rignir eins og venjulega og spáð er suðaustanátt um helgina þannig að við megum búast við syndaflóðinu inni í stofu. Við verðum að setja pott undir gatið í kvöld og reyna að sporna við því að kötturinn fari og fái sér sopa af vatninu, en honum þykir mikið sport að drekka vatn sem birtist óvænt úr loftinu.
Ég er svo að fara að gera mig klára fyrir vinnuna. Skrítið að vinnuvikan skuli vera nú þegar búinn.
XXX Kristín Vala og hennar fylgifiskar.
Kristín Vala (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 09:56
Hólý mólý dindórólý - hvort maður man nú ekki eftir honum Ragga "okkar" á hvíta sloppnum vera að afgreiða. Það eru nú bara ekki svo ýkja mörg ár síðan að ég hætti að kalla þetta "Ragga búð" - hann var góður kallinn þó ákveðinn hafi verið. Það voru góðir tímar þá Jóna mín. En þú ert auðvitað svo sniðug að ná þér í einn Ragga - he he.
Óli biður kærlega að heilsa, ég las þetta allt saman fyrir hann (já, sumir menn eru bara þannig af guði gerðir að það þarf að lesa fyrir þá frá blautu barnsmeini) og hann er búin að skemmta sér alveg konunglega, að vísu þurfti hann að spurja mig tvisvar hvað þið væruð að gera þarna, en ég fyrirgaf honum það alveg - þetta er bara aldurinn sko ;)
Eigið áframhaldandi góðar stundir.
Hafdís Jónsteinsdóttir (IP-tala skráð) 14.4.2007 kl. 00:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.