8.4.2007 | 02:15
Gleðilega páska !!!
Jæja hér erum við komin kl. 22.00 á laugardagskvöldi fyrir páska og ég sit í borðstofunni og horfi inn í eldhús og þar stendur Ragnar við eldhúsboðið og sker niður rauðkál sem að við fundum í dag í búðinni. Hangikjötið er komið í pottinn og suðan er um það bil að koma upp. Við fórum að fá okkur að borða áðan með Fúsa og Florenciu, tókum okkur leigubíl í vinnuna til þeirra og löbbuðum að finna góðan stað í því hverfi og það var frekar erfitt að velja úr öllum þeim stöðum sem að það hverfi hefur upp á að bjóða, það heitir Palermó og búðirnar þar, engu lagi líkt, þær minna örlítið á búðir eins og Spaks manns spjarir og aðrar búðir með íslenskri hönnun, það er allt í því hverfi argentínsk hönnun og verulega flott. Við settumst niður fyrir utan mjög flottan stað og fengum okkur drykk og svo í framhaldi Tapas rétti (slepptum túnfiskinum). Það var yndislegur hiti og hárið blakti ekki á höfðinu á okkur. Við áttum ekki von á að lenda í svona veðri, við vorum búin að undirbúa okkur undir haust sem að væri eins og í ágúst heima en ég sagði við krakkana að við á íslandi værum glöð að fá eitt svona kvöld í viku á sumrin eins og kvöldið í kvöld. Þetta var yndislegt. Að taka leigubíl hér er kapituli út af fyrir sig, ekki bara að leigubílarnir séu komnir til ára sinna heldur eru leigubílstjórarnir eldri en bílarnir. T.d. sá sem að við tókum í kvöld til Palermó hafði svo gamlan bílstjóra að hreifingar hans voru svo hægar og rólegar og hann sat þarna í stuttbuxunum sínum undir stýri og spilaði tangómúsik. Strætisvagnarnir hér eru líka ansi sérstakir. Ég man eftir að hafa séð mynd frá Týról með Maríó Lansa og þar var strætisvagn sem að var líklegast nýr á þeim tíma en er eldgamall núna. Fólkið í vagninum getur opnað gluggana með því að renna þeim til hliðanna og svo aka þeir um göturnar spúandi svörtum reyk aftur úr sér, sem sagt eitthvað sem að maður hélt að væri bara til á Kúbu og í Indlandi.
Krakkarnir ætla að klára vinnuna sína hér heima á morgun, tóku sem sé yfir á flakkara það sem að er í tölvunum í vinnunni og setja inn hér og ætla að vera í páskafíling, páskaegg frá íslandi og ylmur af hangikjöti þó að það heyri nú fortíðinni til á Íslandi, allir hættir að hafa hangikjöt nema á jólum. En hér skal vera gamaldags og við keyptum 3 tegundir af grænum baunum í dag og svo verður bara raðað í séttereingum á fatið.
Krakkarnir voru að tilkinna okkur að eftir viku mundum við fara með þeim til Uruqai en Vísað hans Fúsa hér í þessu landi er að renna út og hann verður að fara út úr landinu og koma inn í það aftur til að endurnýja það, hahahah er þetta ekki fáránlegt, en samt við njótum góðs af og förum á einhverskonar fljótabáti yfir til Uruquai og eyðum þar einum degi eða kanske verðum nótt líka og svo aftur til baka og í leiðinni ætlum við að ferðast um norður Argentínu.
Jæja nú er heldur betur komin hangikjötsilmur í íbúðina og fólkið sem að býr í næstu íbúðum (allir með eldhúsgluggana sína opna) skilja örugglega ekkert í þessari lykt.
Við óskum ykkur öllum gleðilegra páska og hugsum til ykkar allra í páskamessunni á morgun.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Gleðilega páska!! Hér er búið að leita og finna fullt af íslensku og þýsku páskanammi og mikil spenna. Brauðið er í ofninum og ég er að fara að gera kanínubrauðin. Mér finnst alveg frábært að þið séuð að eyða páskum með Fúsa og Florenciu á framandi slóðum. Við fórum í fimmtugsafmæli frænku Gunnars í gærkvöldi og við hittum Viktoríu litlu sem var einmitt að tala um að þið skylduð taka bát yfir til Uruguy því það væri einsog að upplifa sveitina útfrá Buonos Aires. Hún ýtrekaði við mig að tala um þetta við ykkur svo mér þykir mjög fyndið að lesa þetta núna, finnst þið ættuð að gista eina nótt, Viktoría mælti með því. Strákarnir voru heima og horfðu á Ástríksmynd og við erum búin að fá lýsingar í máli og leik hér í morgun því myndin var svo svakalega fyndin. Gunnar fór upp´áðan að fá bökunarpappír og skemmti sér við að horfa á eyrun á tóbíasi þegar hann veifaði pappírnum. Njótið dagsins í messu og yfir páskalambinu. xxxxÓlöf og co.
Ólöf Breiðfjörð (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 10:07
Gleðilega Páska! Bragi segir að í flestum tilfellum séu nú leigubílsstjórarnir eldri en bílarnir. Þú sérð sjaldan 12 ára gamlann leigubílsstjóra undir stýri á 15 ára gömlum Skoda. Ef leigubílsstjórinn ykkar var yfir sextugu, þá hefur hann verið að aka um á Chevrolet frá Seinni Heimsstyrjöldinni ef til vill, eða þaðan af eldri bíl. En við skiljum hvað þið eigið við ;) Leigubílarnir eru eldgamlir og bílstjórarnir enn eldri.
Í gær höfðum við Fajitas í matinn með nautakjöti og kötturinn sníkti sér hvern bitann af fætur öðrum. Þegar hann var búinn með einn bita, klifraði hann upp á lærin á mér og pikkaði ofurvarlega í öxlina á mér með þvílíkann englasvip og fékk annan. Honum þótti það mikið sport að vera að borða svona fínann mat af matarborði mannfólksins, þrátt fyrir smá svartann pipar.
Það er þoka og Bragi var að senda nemendum sínum sms um að ekkert yrði flogið í dag, honum til mikillar gleði. Ef hann er ekki að fljúga þá er hann í afgreiðslunni niðrí skóla að reka á eftir flugvirkjunum og hver þokudagur er dýrmætur. Við ætlum okkur að vera í náttfötunum í allan dag og elda svo alltof stórann Hamborgarahrygg (eða Hamborgarhrygg?) því að allir litlu hryggirnir voru búnir. Það verður því kaldur Hamborgarahryggur í öll mál næstu daga. Hvernig býrð þú annars til sykur-jukkið sem þú pennslar á hrygginn Mamma? Ég fann uppskrift í Veisluréttum Hagkaupa en ég er svo hroðalega vanaföst eins og þú veist. Olla á eftir að öskra eins og Valkyrja í Wagner Óperu þegar hún kemst að því að ég keypti Ora-Baunir í stað ofur-grænu baunana sem hún kaupir alltaf. Mmm....Ora.
Kristín Vala (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 10:18
Gleðilega páska úr Njörvasundinu.
Við Heidi sitjum hér og lesum og erum græn (eins og ORA-baunir) af öfund yfir þessari einstöku ferð ykkar.
Bestu kveðjur til unga fólksins líka.
Ár & síð, 8.4.2007 kl. 10:58
Gleðilega Páska Öll !! Við Siggi erum á fullu að undirbúa páska- og afmælismatinn. Læt mömmu og pabba kíkja á bloggið í kvöld þegar þau koma. kær kveðja
Gyða Kristinsdóttir (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 14:15
Bara að láta ykkur vita að Jóhannesarpassían er komin í gagnið á netinu, kv, GUnnsi
Ólöf Breiðfjörð (IP-tala skráð) 8.4.2007 kl. 14:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.