Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Biðstaða

Komið þið sæl og blessuð, við erum hér í bið, við vorum á leiðinni út og þá bara dundi yfir þessi líka rigning og þrumur og eldingar.  ÉG er búin að reyna að vera að senda blogg en það ekki tekist, er búin að skrifa nokkrar lýsingar á því sem að fyrir augu ber í veðrinu því arna, hér út um gluggann.

ÉG ætla að senda þetta og athuga hvernig það gengur og skrifa svo meira síðar í dag ef að þetta fer í gegn.

Góða ferð Gyða og Siggi til Tallin og hafið það gott og gaman.


Sólin skín á ný

Jæja gott fólk, ekki stóð nú ringingin lengi, um leið og við komum út með okkar regnhlíf var engin rigning lengur, heldur bara dásamlegt veður þó sólarlaust væri.  Við löbbuðum í "Kringluna" og ég fékk á mig pils og peysu og bol og Raggi buxur.  Við fórum svo lengri leiðina heim og komum við í búð og vorum því á mjög góðri göngu i dag.  Við tókum okkur svo siestu seinni partinn og Fúsi er kominn heim að klára verkefni fyrir fyrirlesturinn í skólanum.  Þegar Florencia kemur heim ætlum við að fara og fá okkur steik, en ég hefi ekki verið svo dugleg við steikina síðan ég kom, en það er bara margt gott annað á boðstólnum.  En sem sagt i tilefni af því að verkefnið var að klárast ætlum við á gott steikhús.

 Sólin er farin að skína aftur og það er afskaplega hlýtt úti, Raggi fór út á svalirnar hér útaf stofunni og hann leit til himins eins og sannur íslendingur og segir að það verði sól á morgun.  Við ætlum þá að fara í langan göngutúr niður að Puerto Madero en þar er fræg og mikil brú, víst mjög sérstök, sem að vígð var 2001. 

Jæja nú vill Ragnar komast í tölvuna hann ætlar að lesa fyrir mig upphátt fréttir og ég sauma smá út á meðan, svona rétt áður en að við komum okkur út.

Hafið það öll gott og við byðjum að heilsa öllum.

 


Rigning

Jæja góðan daginn öll sömul.  Nú var að byrja að rigna, afskaplega fínn úði sem að dembist hér yfir og fólk hleypur með blöð yfir hausum á götunum. Við vorum sem betur fer ekki farin út og ætlum því að bíða og sjá hverju fram vindur.  En ef að ekki styttir upp þá bara fáum við regnhlífar krakkana og förum út því að ekki er rokinu fyrir að fara hér.  Raggi notar tímann núna og moppar yfir gólfin.  Krakkarnir fóru í vinnu snemma í morgun og eru að klára rest fyrir konsúlatið og koma svo heim að klára að setja ansi flottar myndir frá Íslandi á spjöld en Fúsi er með fyrirlestur í skólanum á fimmtudaginn og notar þessar loftmyndir af m.a. Geldinganesi og nágrenni.  Við hlustuðum á Jóhannesarpassíuna í gærkveldi og vorum stolt af okkar manni.  Hinns vegar fannst okkur Eyjólfur ekki nógu góður á mörgum stöðum, og kórinn stundum óöruggur í innkomunum en kanske var það bara tengingin.

Hér fyrir utan er verið að setja gangstéttarhellur og það er ekki verið að notast við litlar gröfur eins og heima, heldur er það bara hakinn og sleggjan, mjög findið að sjá en þeim gengur nú samt alveg ágætlega.  Við vorum að hugsa um að skreppa aðeins í "Kringluna" þeirra hérna í þessu hverfi og athuga hvort maður gæti bætt einhverju við fataskápinn sinn.  Það kemur í ljós.

En alla vega ætlum við að gera eitthvað og líklega fara út að borða í kvöld með krökkunum en það er búin að vera mikil törn hjá þeim.

Ég ætla að reyna að senda myndir úr kirkjunni hérna rétt hjá ef að ég næ því en sambandi er oft ekki gott og þá ræður tengingin ekki við að ég sé að gera mikið, gengur t.d. ekki vel að downlóda mogganum.

Við byðjum að heilsa heim í snjóinn og farið nú öll varlega í umferðinni ef að hálka er úti.

 


Vöktum of lengi

jæja nú verð ég að skrifa í fyrramálið þegar ég vakna en við vöktum of lengi í kvöld, krakkarnir voru lengi að vinna og við þurftum mikið að kjafta þegar þau komu heim m.a. um greinina frá prófessornum í Prinston en Florencia sagði "ég ætti kanske frekar að fara í Harward" en þessir 2 skólar eru að skrifa henni á hverjum degi að bjóða henni gull og græna skóga ef hún velur þeirra skóla, en samt hún ætlar að halda sig við Prinston þrátt fyrir þennan kengruglaða prófessor, sem að betur fer er í allt öðru fagi en hún.

Skrifa meira á morgun, en kanske hafa 3 myndir frá Palermó komist inn í kvöld, 2 hús og bíll sem að vakti áhuga Ragnars og takið eftir ef að myndirnar hafa komið að á bílamyndinni er æðislega flott töskubúð sem að ég er alveg veik í, og gaman að sjá andstæðurnar, þennan gamla bíl og svo hátísku verslun í bakgrunni.

Góða nótt, við hér í Buenos Aries.


Páskadagskvöld

Jæja þá erum við södd og sæl eftir að hafa borðað hangikjöt, kartöflur, jafning, rauðkál og grænar baunir sem að líktust ótrúlega ORA baunum, kanske örlítið litsterkari en Fúsi hafði orð á því að þetta minnti hann á Ora baunirnar.  Krakkarnir urðu að vinna hér heima í allan dag og við fórum í hverfi sem að Florencia sagði að við yrðum að fara í og við sannarlega sáum ekki eftir því.  Hverfið heytir San Telmo og er elsta hverfi Buenos Aries, í raun bara gamla Buenos Aries, eins og við getum kallað Bankastræti, Lækjargötu og Aðalstræti gömlu Reykjavík og hitt sem að var þar fyrir utan var sveit sem að byggðist smám saman upp.  Umhverfið í San Telmo er því töluvert öðruvísi en t.d. í þessu hverfi.  Þarna var þrátt fyrir páskadag þvílíkt fjör, það voru antík markaðir og antík búðir opnar og tangódansarar á öðru hverju götuhorni og hljóðfæraleikarar og brúðuleikhús og m.fl.  Veðrið var eins og það hefur verið bara alveg ótrúlegt.  Leigubílstjórinn sem að keyrði okkur sagði að í Argentínu ættu að vera 4 árstíðir, en væri óðum að breytast í 2 vegna gróðurhúsaáhrifa.  Hann spurði hvaðan við værum og tók því fram að það væri ekki af forvitni, hann hefði þann sið að byðja útlendinga að kenna sér að segja "takk fyrir" og "hvernig hefur þú það" og þeirra tungumáli og hann sagði að við segðum "takk" eins og sænskt fólk sem að hann hefði keyrt. 

Við ætlum sannarlega aftur til San Telmo og þá með krökkunum og kanske kaupa eitthvað á antíkmarkaði en líklegast ekki í antíkbúðunum því að það  er ekki fyrir buddur venjulegs fólks þó að í Argentínu sé.  Florencia sagði líka að hér hefði verið svo mikið af svo ríku fólki að það hefði ekki vitað aura sinna tal og allt þetta fína dót í  Antik búðunum væri í upphafi flutt frá Frakklandi, enda var það svo flott að það var eins og að ganga um safn að koma inn í þessar búðir.

Við fórum á veitingahús sem að var mjög skemmtilegt og þar var mikið af argentínskum fjölskyldum að fá sér miðdegis snæðing og svo reyndar ferðamönnum en þeir eru mest áberandi í þessu hverfi.

Eftir að hafa verið þarna í ca 4 tíma þá fórum við heim á leið og suðum kartöflur og gerðum jafning og krakkarnir voru afskaplega sæl, voru búin að bíða allan daginn eftir þessari máltíð.

Þau eru nú aftur farin að vinna en þessu verkefni fyrir breska konsúlatið skal skilað á morgun og svo eru þau líka að kenna á morgun í skólanum.  Við Ragnar sitjum hér við kertaljós og kósíheit og ætlum að fara að horfa á eina af 3 DVD myndum sem að við keyptum í New York " Little Miss sunshine"

Nú ætla ég að kveðja í bili, Ragnar er farin að líkja mér við Castró, en hann er víst farin að blogga, og við þökkum fyrir öll svörin frá ykkur og  það er ekki ólíklegt að ég skrifi meira á morgun.

Bestu kveðjur og góða nótt öll sömul. 


Gleðilega páska !!!

Jæja hér erum við komin kl. 22.00 á laugardagskvöldi fyrir páska og ég sit í borðstofunni og horfi inn í eldhús og þar stendur Ragnar við eldhúsboðið og sker niður rauðkál sem að við fundum í dag í búðinni.  Hangikjötið er komið í pottinn og suðan er um það bil að koma upp.  Við fórum að fá okkur að borða áðan með Fúsa og Florenciu, tókum okkur leigubíl í vinnuna til þeirra og löbbuðum að finna góðan stað í því hverfi og það var frekar erfitt að velja úr öllum þeim stöðum  sem að það hverfi hefur upp á að bjóða, það heitir Palermó og búðirnar þar, engu lagi líkt, þær minna örlítið á búðir eins og Spaks manns spjarir og aðrar búðir með íslenskri hönnun, það er allt í því hverfi argentínsk hönnun og verulega flott.  Við settumst niður fyrir utan mjög flottan stað  og fengum okkur drykk og svo í framhaldi Tapas rétti (slepptum túnfiskinum).  Það var yndislegur hiti og hárið blakti ekki á höfðinu á okkur.  Við áttum ekki von á að lenda í svona veðri, við vorum búin að undirbúa okkur undir haust sem að væri eins og í ágúst heima en ég sagði við krakkana að við á íslandi værum glöð að fá eitt svona kvöld í viku á sumrin eins og kvöldið í kvöld.  Þetta var yndislegt.  Að taka leigubíl hér er kapituli út af fyrir sig, ekki bara að leigubílarnir séu komnir til ára sinna heldur eru leigubílstjórarnir eldri en bílarnir.  T.d. sá sem að við tókum í kvöld til Palermó hafði svo gamlan bílstjóra að hreifingar hans voru svo hægar og rólegar og hann sat þarna í stuttbuxunum sínum undir stýri og spilaði tangómúsik.  Strætisvagnarnir hér eru líka ansi sérstakir.  Ég man eftir að hafa séð mynd frá Týról með Maríó Lansa og þar var strætisvagn sem að var líklegast nýr á þeim tíma en er eldgamall núna.  Fólkið í vagninum getur opnað gluggana með því að renna þeim til hliðanna og svo aka þeir um göturnar spúandi svörtum reyk aftur úr sér, sem sagt eitthvað sem að maður hélt að væri bara til á Kúbu og í Indlandi. 

Krakkarnir ætla að klára vinnuna sína hér heima á morgun, tóku sem sé yfir á flakkara það sem að er í tölvunum í vinnunni og setja inn hér og ætla að vera í páskafíling, páskaegg frá íslandi og ylmur af hangikjöti þó að það heyri nú fortíðinni til á Íslandi, allir hættir að hafa hangikjöt nema á jólum. En hér skal vera gamaldags og við keyptum 3 tegundir af grænum baunum í dag og svo verður bara raðað í séttereingum á fatið.

Krakkarnir voru að tilkinna okkur að eftir viku mundum við fara með þeim til Uruqai en Vísað hans Fúsa hér í þessu landi er að renna út og hann verður að fara út úr landinu og koma inn í það aftur til að endurnýja það, hahahah er þetta ekki fáránlegt, en samt við njótum góðs af og förum á einhverskonar fljótabáti yfir til Uruquai og eyðum þar einum degi eða kanske verðum nótt líka og svo aftur til baka og í leiðinni ætlum við að ferðast um norður Argentínu.

Jæja nú er heldur betur komin hangikjötsilmur í íbúðina og fólkið sem að býr í næstu íbúðum (allir með eldhúsgluggana sína opna) skilja örugglega ekkert í þessari lykt.

Við óskum ykkur öllum gleðilegra páska og hugsum til ykkar allra í páskamessunni á morgun.

 


Föstudagurinn langi í B.A.

Góðan daginn öll sömul.  Jæja nú er komin laugardagsmorgun og enn skín sólin glatt.  Við áttum afskaplega skemmtilegan dag í gær.  Fengum okkkur morgunmat hér heima og síðan fóru krakkarnir í vinnu og svo þegar við vorum klár tókum við okkur leigubíl út í hverfið sem að þau vinna í og þar eru fullt af skemmtilegum götum með verslunum, veitingahúsum og görðum með útimörkuðum.  Við löbbuðum um og Ragnar dáðist að öllum eldgömlu bílunum sem að fullt af fólki virðist eiga hér, meira af gömlum druslum en nýjum og fínum bílum, þó sér maður nokkra.  Við sem sagt nutum góða veðursins og fórum svo á stofuna til Fúsa og Florenciu og löbbuðum síðan öll saman á veitingastað sem að þau fara oft á í hádeginu.  Það er sem sé fótboltaklúbbur og mér fannst pínulítið eins og ég væri á Kúbu, afskaplega sjarmerandi eldgamall staður með eldgömlum þjónum.  Þarna borðuðum við þennan fína mat, þeir Fúsi og Ragnar fengu sér að sjálfsögðu nautasteik af bestu gerð og salat með og við Florencia fengum okkur pastarétt afskaplega góðan og með þessu drukkum við saman 1 lítir af bjór og vatn.  Á ég að segja ykkur hvað þetta kostaði. 1.000 kr.  Þetta þótti okkur frekar skondið en erum svo sem orðin vön þessu núna.

Krakkarnir fóru síðan aftur á vinnustofuna og við héldum áfram göngu okkar um hverfið og síðan tókum við bara aftur leigubíl heim (hann kostar 250 kr)  og fórum í apotek sem að var opið í nágrenninu að kaupa ýmislegt sem  að okkur vanhagaði um og við vorum frekar lengi að því og ég með gulu bókina í höndunum.  Við fórum síðan heim og lögðum okkur í klukkutíma og þá drifum við okkur aftur út og löbbuðum hér í nágrenninu  og niður í miðbæinn og það var svo mikið af fólki að njóta frídagsins og veðurblíðunnar.  Við sáum margt skondið og skemmtilegt á ferð okkar og settumst síðan niður á útiveitingastað og fengum okkur hvítvín og bjór.  Við röltum síðan heim á leið  og gerðum kósí áður en að krakkarnir komu kl. hálf átta og settumst niður smá stund og þau í  sturtu og klæddu sig og við fórum á pizzastað annars staðar í borginni, nálægt stóru breiðgötunum og þá fékk maður pínu New York fíling.  Þetta var afskaplega skemmtilegur staður og pizzurnar alveg súpergóðar, þó gátum við ekki klárað og hér er bara sjálfsagður hlutur að fá restina í kassa og taka með sér heim, sem að við gerðum. 

Við löbbuðum síðan um og að stórri súlu sem að stendur á stærstu gatnamótunum hér þar sem að allar breiðgöturnar mætast og tókum að sjálfsögðu mynd  sem ég reyni að senda á eftir.

Þessi súla er minnismerki fyrir argentínska fánann.

Fúsi og Florencia ætla að reyna að klára verkefnið í dag og eru búin að kalla til  einn sem að vinnur á stofunni til að aðstoða sig, þannig að þau geti verið með okkur á morgun.  Við ætlum  að sjóða hangikjötið í kvöld og fara að leita að baunum sem að líkjast Ora baunum og rauðkáli.

Jæja nú ætla ég að taka úr mér rúllurnar, ekki veit ég hvers vegna ég er að setja þær í mig því að ég er ekki fyrr komin út fyrir hússins dyr en ég er orðin eins og lamb í orðsins fyllstu merkingu.

En ég er alltaf að  vona að hárið á mér venjist þessum hita og smá raka (annars held ég að það sé aðallega rakinn sem gufar upp af sjálfri mér sem  að krullar upp hárið).

Hafið öll góðan dag og Gleðilega páska frá okkur öllum.

 

 


Buenos Aries

Komið þið öll sæl og blessuð.  Jæja þá erum við komin inn eftir fyrsta daginn okkar í Buenos Aries.  Eins og stúlkan frá Euqador, sagði Florencia að nú yrði hún að ráðleggja mér að vera ekki með gull og ekki  myndavélina fínu voðalega sýnilega.  ÉG tók af mér gullið og við fórum að labba í miðju borgarinnar en við búum reyndar líka þar.  Myndavélin endaði nú framan á maganum á Ragnari enda engir bófar sýnilegir, allt friðsamt fjölskyldufólk að njóa hins dásamlega veðurs sem að er búið að vera hér í dag og hér er frí eins og heima á skýrdag og föstudaginn  langa.  Við vorum afskaplega hrifin af því sem að við sáum í dag og veðrið eins og á sólarströnd þó að það sé komið haust.  Það var líf og fjör í bænum, handvegsmarkaður, leikarar á stjái í flottum búningum sem að minntu okkur á Lyon. Og trén hér, við áttum ekki orð og eigum eftir að setja myndir á síðuna af einhverjum af þeim.  Við settumst niður og fengum okkur (Fúsabrauð) sem að er brauð sem að er setti í klessuristavél með osti og kjöti á milli afskaplega gott og við fengum okkur að sjálfsögðu rauðvín með. 

Við löbbuðum svo hring um hverfið og hér er kirkja í nágrenninu sem að við ætlum að fara í páskamessu í. 

Já veðrið er búið að vera svolítið öðruvísi en það var í N.Y. í gær hahahhahah ef þið bara hefðuð séð okkur í úrhellisrigningunni að ná í ljósmyndapappír fyrir Fúsa alla leið hinum megin á Manhattan og það lak úr okkur, Ragnar á nýju "Börn náttúrunnar" skónum hlaupandi út á götur að flauta á leigubíla, en þetta var bara ákkúrat eins og í bíómyndunum þegar gulu leigubílarnir þjóta um göturnar flautandi og skvetta bara á mann og stoppa alls ekki.  En sem betur fer eftir að við vorum búin að taka okkur pásur á 3 mismunandi stöðum að fá okkur heitt kaffi í pappaglösum, náði Raggi í leigubíl sem að fór með okkur heim á Hótel og við náðum að þorna áður en að við fórum í flugið.

það var bara notarleg stemming í fluginu í nótt, ein og er nú yfirleitt í næturflugi. ÉG keypti mér þægilegan kodda til að krækja um hálsinn og var með hann og svo teppi sem að voru í hverju sæti og svo horfðum við smá á sjónvarpið, en það er sjónvarpsskjár á hverju sætisbaki og maður getur valið úr fjölda stöðva.  Það var meira að segja sími í sætunum, þannig að ég hefði getað hringt heim hefði í viljað spandera í það.

Við fengum bara þokkalega góðan kvöldmat og svo morgunmat í morgun 2 tímum, áður en að við lentum.  Vegna þrýstingar í vélinni var bæði yougurtið og safinn sem að við fengum í plastílátum með állokum á orðið eins og loft hefði  safnast undir lokin. Ég var náttúrulega ekki að spá í það og opnaði mína yougurt og fékk gusuna framan á minn svarta bol (var það ekki líkt mér). ÉG man þetta næst og ég passaði mig þegar ég opnaði safann að opna frá mér.

Jæja við erum núna að fara að borða argentínskar nautalundir (hvað annað) sem að Florencia var að matreiða.

Þessi fyrsti dagur lofar góðu en auðvitað getur farið að rigna eins og gerðist í New York en þá kaupum við okkur bara stærri regnhlífar en við vorum með þar. Og kaupum líka stígvél því að hér er jú allt mun ódýrara en í New York.

Á morgun þurfa krakkarnir að vinna þó að það sé frídagur, eru að leggja lokahönd á Breska konsúlatið.  Við ætlum að hlusta á Gunnar syngja guðspjallamanninn og njóta þess hér í stofunni í Argentínu.  ÉG held að þú Gunnar mundir vilja nota borðstofuna hér sem upphitunnarherbergi, það hljómar ansi vel hér, við sitjum hér og hlustum á tónlist og ég tók undir áðan og var bara nokkuð hissa á hvað ég gat sungið þokkalega.  Það er frábær hjómburður hér einhverra hluta vegna.

ÉG set myndir inn á í kvöld, góða nótt öll sömul.


Komin til Buenos Aries

Jæja þá erum við komin heil til Buenos Aries.  Ferðin gekk mjög vel og við gátum sofið vel í vélinni, enda allir sofandi um miðja nótt.  Veðrið sem að tók á móti okkur er bara eins og á Tenerife og nú erum við á leið í sturtu og út í góða veðrið með Fúsa og Florenciu og myndavél. 

 Ég skrifa meira á eftir þegar við erum búin að líta á mannlífið hér og taka einhverjar myndir.

Það er margt sem að ég á eftir að skrifa.

 


Jæja þá höldum við áfram í kvöld

Jæja nú heldur ferðalagið áfram í kvöld en flugið til Argentínu er kl. 22.10.  Við erum að ganga frá farangri og tékkum okkur út eftir hálftíma og þá eru það bara strætin sem bíða okkar þar til við leggjum af stað á flugvöllinn. 

Það var afskaplega ánægjulegt kvöldi í gærkvöldi og ég mæli með að þeir sem  að leggja leið sína hingað fá sér að borða á Balthazar, maturinn æðislegur og staðurinn sjálfur ekki síðri. Það var gaman að hitta hana Heidi og við gátum spjallað og spjallað og þegar við vorum búin að borða þá fórum við á rússneskan bar sem  að heitir Pravda, og héldum áfram að spjalla.

Jæja nú verður slökkt á tölvunni og við setjum okkur í samband eins fljótt og við getum.'

Takk fyrir skeytin ykkar, það er gaman að lesa þau.

Kveðja til mömmu og pabba, Gyða og hafið það öll gott.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband