18.4.2007 | 19:26
Nýjar myndir
Jæja, við komum hingað aðeins í pásu eftir mikinn göngutúr um marga fallega garða og vorum bara búin á því þegar heim var komið. Vorum klístrug af miklum hita, en eins og sannir íslendingar ætlum við út aftur, því að hvað er nú smá klístur þegar maður er að njóta þess að vera í hita.
Nýju myndirnar eru í fyrsta Albúminu "Argentína"
Kveðja Jóna og Raggi
18.4.2007 | 14:09
Á leið út
Jæja mér tókst að senda myndirnr og nú erum við á leið út í hitann, ætlum að fara að skoða bókasafnsbygginguna hér sem að er víst mjög frægur arkitektúr en okkur þykir hún hundljót, en við verðum nú að kíkja á hana og taka myndir og svo eru fullt af fallegum görðum þar niður frá og nú er bara að bjóða moskitoflugunum byrginn.
Við tókum video af veðrinu í gær Kristín Vala og við munum taka aftur myndir ef að spáin gengur eftir og kemur annað eins í kvöld.
Bestu kveðjur. Jóna og Raggi.
18.4.2007 | 13:15
Kirkjugarðurinn
Jæja komið þið blessuð og sæl og afsakið hvað ég er sein að skrifa núna, en ég er þó búin að gera nokkrar tilraunir en sambandið er lélgt og skeytin mín bara týnst. Ég vona að þetta komist til ykkar.
Í gær var þvílíkur hiti að við vorum bókstaflega að leka niður, þó var ekki mikil sól. Við fórum í hádeginu til Palermó og fengum okkur hádegissnarl með krökkunum og eftir það löbbuðum við þar um en ákváðum svo að fara í kirkjugaðinn sem að er ótrúlegur. Þetta er garður fullur af grafhýsum og þar eru heilu fjölskyldurnar grafnar í svo flottum grafhýsum að það er ótrúlegt. Það eru hurðir sem að er gler í, og hægt er að sjá inn um gluggana. Flottar harðviðarkistur hvíla hver á sinni marmarahillu og svo er í flestum búið að gera svona eins og pínu stofu fyrir framan kisturnar, t..d hilla með einhverjum fínmm munum á, og blómum í vasa og jafnvel myndum af viðkomandi í römmum. Svo eru sum grafhýsin sem að bera með sér að enginn er eftir sem að hugsar um að halda þeim við. Einhvertíma hefur gluggi brotnað og þá leika veður og vindar jafnvel um grafhýsið og kisturnar orðnar illa farnar, en þetta er þó í undantekningar tilvikum. Það ganga margir kettir heimilislausir um garðinn og þeim virðist koma vel saman og einhver gefur þeim. Við tókum lika nokkrar myndir af þeim.
Eftir að hafa labbað um garðinn í hitanum mikla fórum við og fengum okkur bjórsopa og síðan löbbuðum við heim og við vorum ekki fyrr komin inn úr dyrunum en það bara eins og hendi væri veifað opnuðust himnarnir og þvílíkt veður, það geysaði stormur og regn, þrumur og eldingar í 2 klukkutíma, vatnið á götunum var svo mikið að fólkið missti hreinlega áttirnar, labbaði bara um á miðjum götum og einn sem að reyndi að halda sig á réttum stað soppaði allt í einu og bara fór úr skónum, sennilega í nýjum fínum leðurskóm, og svo bara hélt hann á þeim. Það gaus vatn upp úr niðurföllum á götunum svo að það var bara eins og að horfa á gosbrunna. Himinn logaði í eldingum langt fram eftir öllu kvöld og þrumurnar eins og sprengjur. Florencia sem að er nú öllu vön sagðist ekki hafa upplifað annað eins.
Við settum hlerana fyrir svefnherbergisgluggana og settumst í stofuna og horfðum á Manhattan með Woody Allen og höfðum það bara kosí.
Nú er aftur komin svona mikill hiti og sólin skín í ofanálag og við á leiðinni út, en eins gott að koma sér heim fyrir 6 því að leigubílstjorinn sem að keyrði Fúsa og Flor heim í gær sagði að svona yrði veðrið fram á föstudag, heitir dagar og stormur á kvöldin.
ÉG ætla að reyna að senda þetta núna og líka myndir, vona að sambandið gangi á meðan.
Kær kveðja héðan frá Buenos Aries.
17.4.2007 | 00:17
Rólegur dagur
Komið öll blessuð og sæl og gaman var að lesa í kvöld allar athugasemdinar. ÉG má líka til með að segja að við fáum líka e-mail frá henni Völu frænku, sem að kallar mig "Jónu systur yngri" sem að mér finnst hinn mesti heiður.
Bréfin hennar eru engu lík og ættu sannarlega að vera hér svo að þið öll gætuð líka lesið. Hún kemur alveg sérdeilis vel fyrir sig orði hún Vala frænka.
Í dag erum við svo sem bara búin að vera í rólegheitunum eða þannig. Við fórum t.d. ekki út með myndavél og því fáið þið ekki nýjar myndir í dag. Einu myndirnar sem að voru teknar voru 2 myndir af fótleggjum mínum, og mér dettur ekki í hug að setja þær á vefinn. Ekki var ástæðan sú að Ragnari findist þeir svo fagrir að hann yrði að mynda þá ( þó að honum finnist það nú yfirleitt) en ég er illa farin af moskitobiti, leggirnir eru bara eins og hálfgerðir baunapokar en sem betur fer klæjar mig ekki mjög mikið en við ákváðum að fara í dag og finna á mig buxur, en eins og þið vitið þá eru nú pilsin frekar mín hlið. Við fórum nú samt fyrst í apotek og fundum áburð fyrir mig sem að ég vona að verði farin að virka á morgun.
Við löbbuðum í Kringluna sem að við þekkjum nú orðið glettilega vel og alltaf sér maður eitthvað nýtt sem að manni langar í, en buxur voru málið í þetta sinn. ÉG fann buxur en það voru hálfgerðar hvartbuxur þannig að ég þurfti sokka líka, því ekki má skína í bert á mér núna á meðan þessar flugur sækja svo í mig. Ekki er nú mikið úrval af hnésokkum, hér nema bara svona nælon eins og við þekkjum heima en við fundum nú samt sokka að vísu röndótta en ég lét mig hafa það og keypti meira að segja til skiptanna í 2 litum.
Við komum við i Dicko þið vitið stórmarkaðnum okkar á leiðinni heim og okkur var orðið ansi heitt, því hitinn var mikill þó að sólin væri á bak við ský, við versluðum í matinn og svona ýmsar nauðþurftir og fórum síðan heim og ég í buxurnar, röndóttu sokkana og röndóttan síðermabol sem að ég keypti í Marimekkó á Laugavegi áður en að við fórum. ÆÆÆ við Raggi fórum bara að skellihlægja, buxurnar eru frekar víðar svona pokóttar og þið getið ímyndað ykkur hvernig ég leit úr, það var bara eins og ég væri að fara að skemmta hér niður á einhverju torginu svei mér þá. Ég gat bara ekki hugsað mér að fara svona út svo að ég valdi bara svart sítt pils sem að ég keypti mér í síðustu viku og sokkana og röndótta bolinn og vonaði að flugurnar létu mig í friði, sem að þær reyndar gerðu.
Við fórum síðan aftur af stað ég og hann Raggi minn og fórum og bara fengum okkur rauðvín á dásamlegum stað hér rétt hjá enda klukkan orðin 6, við nutum okkar í þessum hita og sátum í klukkutíma þarna. Við röltum síðan heim og elduðum okkur fljótlegan mat með örþunnum nautakjöts sneiðum og grænmeti og ætlum að gera svoleiðis fyrir krakkana en þau fóru strax eftir vinnu að kenna í háskólanum og koma ekki fyrr en um 11 heim.
Raggi sagðist ekki ætla oftar myndavélarlaus út úr húsi því að auðvitað er endalaust myndefni jafnvel þó að maður haldi að maður sé bara að fara í ómerkilegan göngutúr.
Afinn hló mikið þegar hann heyrði af nafna sínum, en það má segja að þeir séu sannarlega á kafi í fornum ævintýrum bræðurnir Jökull og Ragnar. Við hlógum þegar sagan frá Palermó rifjaðist upp fyrir okkur. ÆÆÆÆ Ólöf er stundum eins og móðir sín, lendir í skemmtilegum ævintýrum, þó að þau séu ekki endilega skemmtileg rétt á meðan á ósköpunum stendur, en samt það fer nú eftir því hvort maður er að pissa í sig eða ekki.
Bestu kveðjur til ykkar allra og jú Erna nú ætla ég að bjóða Ragga upp í Tangó og helst á "Börn náttúrunnar skónum".
16.4.2007 | 01:57
Æfintýri á sunnudegi
Jæja það hlaut að koma að því að maður lenti í einhverjum ævintýrum hér í Buenos Aries.
Við ákváðum í morgun að fara í þann hluta Buenos Aries sem að Tangó dansinn átti uppruna sinn.
Það er gaman að hafa heimamanneskju að fræða mann um þetta allt saman. Í raun er Tangódansinn eins og Blues ameríkumanna, þ.e.a.s. það voru fátætkir innflytjendur sem að urðu óreglu að bráð sem að byrjuðu að dansa Tangó. Það skírir kanske að þegar við höfum séð um helgar hér tangó dansara þá segir Raggi " þeir eru svo gangsterlegir" og það er raunin, þeir eru eins og þeir voru t.d.í myndinni West Side Story. Fátækir, klíkudrengir. Það var ótrúlegt að koma í þennan borgarhluta í dag.
Við vissum ekki að einmitt þegar við ætluðum að fara í þennan borgarhluta, sem að er óhætt að fara í um hábjartan daginn og fara á skemmtileg kaffihús, þá var ákkúrat mjög merkilegur fótboltaleikur að hefjast og leikvangurinn er í þessu hverfi. Leigubílstjórinn sagði okkur þegar við vorum um það bil að komast þangað, hvað væri í gangi. Við sáum strax áhyggjusvip á Florenciu en við héldum samt áfram. Þegar við komum þangað voru mikil skrílslæti á staðnum og á okkur mikið glápt, svo ég tali ekki um myndavélarnar sem að við tókum upp. Florencia talaði við lögregluþjóna sem að voru þarna og þeir sögðu okkur að koma okkur bara sem fyst út úr hverfinu.
Við létum nú ekki alveg segjast og héldum að við gætum bara farið inn á kósý kaffihús og beðið þar til að leikurinn væri byrjaður og þá ættum við bara göturnar þarna. Nei ekki var það svo gott því að veitingataðirnir höfðu vit fyrir sér og höfðu lokað. Við vorum þess vegna nauðbeygð til þess að yfirgefa þetta hverfi sem að er annars mjög sérstakt og skemmtilegt þó að auðvitað verði maður að halda fastar um veskin sín og myndavélar. Við héldum okkur í nálægð við hópa af lögreglumönnum sem að voru á hverju horni og biðum eftir leigubílum sem að því miður voru allir pantaðir.
En að lokum þá komu tveir og við tókum annan niður í næsta hverfi sem að er dansaður Tangó á hverju horni, en það er staðurinn sem að við vorum á síðasta sunnudag, þar sem að antiqmarkaðurinn er. Við gengum þar um svæðið ásamt þúsundum manna og höfðum það gaman og ég fékk gamlan draum uppfylltan. Dásemdar barna saumavél varð á vegi mínum og svei mé þá við horfðumst í augu ég og saumavélin, ekki kom annað til mála en að ég einaðist hana. Nú stendur hún á náttborðinu hjá mér. Við fórum og fengum okkur samlokur og rauðvín á skemmtilegasta staðnum á svæðinu (þar sem að kaffi expresso vélin gamla er) og síðan héldum við för okkar áfram og komum við á mörgum antiq stöðum.
Við náðum síðan í leigubíl hingað í þetta hverfi og fengum okkur besta ís sem að við höfum fengið. (vona að ísbúðin á Hagamel afsaki þetta) og síðan gengum við heim í þessu dásamlega veðri og kirkjan okkar hér í þessu hverfi skartaði sínu fegursta eins og þið sjáið á myndum sem að við sendum.
Jæja nú erum við á leið í rúmið og ég búin að bera á mig gamla "góða" exemáburðin, en ég er illa bitin eftir helv.......... moskitoflugur. Ég hefi aldrei lent í þessu fyrr, hefi alltaf staðið í þeirri meiningu að þær vilji ekki sjá b blóðflokk, en því miður þetta verður maður að þola í fjarlægum löndum og eins gott að maður var sprautaður við öllu mögulegu áður en haldið var af stað.
Við bjóðum ykkur öllum góða nótt héðan frá Argentínu.
15.4.2007 | 12:26
Ferðin til Uruguay
Góðan daginn öll sömul. Jæja þá var ég að vakna hress og kát eftir gærdaginn, en við vorum svolítið þreytt þegar heim var komið. Þessi ferð til Uruguay var alveg yndisleg. Við fórum með skipi kl. 9 í gærmorgun, ég hélt að við værum að fara með svona Herjólfi eða einhverju svoleiðis, nei þetta var bara risa skip upp á 4 hæðir með lyftu og verslunum (duty free) börum og bakaríum. Það voru bara eftir miðar á 1. class þegar við komum og við vorum mjög fegin því að við höfðum svo svaklega fína svona eins og lacyboy stóla til að sofa í og við sofnuðum í klukkutíma eftir að hafa fengið okkur kaffi og með því á veitingastaðnum þarna á 4. hæðinni. Þetta var hin þægilegasta ferð og við komum hress í höfn í Coloniu og fórum strax að finna gamla bæinn þar og þar vorum við bara allan daginn. Þetta eru fullt af litlum götum sem að liggja þvers og kruss ( eins og götur gera nú yfirleitt) og kyrrðin og friðsældin er þvílík þarna að það liggur við að maður hvísli.
Þegar við vorum að komast að mörkum gamla bæjarins þá var farið að heyrast í þrumum og við sáum að það stefndi í mikið flóð, vorum spæld því að okkur datt ekki í hug að þetta mundi ganga yfir á klukkutíma. Við fundum þetta líka glæsliga veitingahús sem að var svona djazzklúbbur og þar komum við okkur notarlega fyrir og fengum okkur að borða og kaldan bjór og nóg af honum eftir labbið neðan frá höfninni. Það var eins og við manninn mælt að það var eins og himnarnir opnuðust og það ringdi þvílíkt og annað eins og þrumur og eldingar, en það væsti ekki um okkur.
Eftir um það bil klukkutíma stytti upp og við fórum út og héldum áfram niður að gamla bænum og það opnaðist bara fyrir okkur nýr heimur. Allar göturnar liggja niður að þessari miklu á sem að Colonia stendur við og það virðist sem að asi umheimsins hafi aldrei komið þarna við, húsin lágreist í fallegum litum og fyrir flestum fallegar heklaðar gardinur og göturnar bara gerðar úr grjótinu sem að berst á land úr ánni og trén eins og maður sé í ævintýraheimi. Að labba niður að ánni þar sem að risatré bara vaxa upp úr sandinum í fjörunni, þetta var virkilega yndislegt. Þarna ferðuðust flestir um á litlum vespum en þó sá maður nú einn og einn bíl, hvort sem að þeir voru nú í notkun eða upp á skrautið. Mér skilst að spánverjar og portugalar hafi barist um þessa borg á sínum tíma, og það var eitt og annað sem að minnti á það svo sem eins og virkisveggurinn meðfram ánni og fallbyssurnar á sínum stað.
Við fórum svo að rölta okkur til baka niður á höfn eftir kvöldmat þegar var farið að dimma og keyptum okkur far með hraðskreiðara skipi til baka og aftur hélt ég að ég væri að fara bara í svona spíttbát fyrir 15 manns eða svo en nei þetta var eins og breiðþota og þernur um borð sem að báru í okkur veitingarnar, samlokur og safa og svo gátum við bara sofnað og áður en að við vissum af vakti Raggi okkur og sagði að við værum komin til Buenos Aries. Florencia beið hér eftir okkur með kertaljós og mat en hún komst ekki með, varð að klára að gera pappírsvinnu fyrir Prinston skólann en hún verður að skila því öllu inn á morgun.
Í dag ætlum við að fara öll saman í elsta hluta Buenos Aries og njóta sunnudagsis saman. Rafhlaðan úr myndavélinni er í hleðslu svo að ég geti nú haldið áfram myndatöku. Ekki veit ég hvernig maður færi að væri maður með filmuvél.
Við sendum bestu kveðjur heim til allra.
14.4.2007 | 03:54
Uruquai á morgun
Jæja þá er enn einn dagur að kveldi kominn og við á leið í rúmið. Í dag erum við aftur búin að ganga okkur upp að hnjám, svei mér þá. Veðrið hér eins og best verður á kosið og bara dásamlegt að ganga um þessa borg. Hér eru miklar andstæður, við göngum fram hjá glæsilegum byggingum bæði í gömlum, frönskum stíl og glerturnum eins og í New York og allt þar á milli. Við kíkjum á glugga og förum inn i glæsilegar verslanir með heimsklassa varning, en svo förum við líka inn í búðir til að kaupa okkur sokka og nærbuxur þar sem að er "búðarborð" þið munið, afgreiðslustúlkurnar fyrir innan og kúnnin fyrir framan. ÉG sá búð sem að í glugganum var úrval af nærbuxum og sokkum og hvenær vantar mann ekki slíkt í útlöndum. Ég fór inn og Raggi minn beið fyrir utan. Búðin var full af hillum með litlum öskjum sem að innihéldu bæði herranærbuxur, kvennærbuxur, sokka, brjósthaldara og sv.frv. ég náttúrulega labbaði bara um og spurði um eitt og annað og afgreiðslustúlkan þurfti að benda mér á að halda mig fyrir framan afgreiðsluborðið, hahahahahaha æææ hvernig á maður nú að átta sig á svona. En ég fór út með þessar fínu nærbuxur og enn betri sokka.
Svo er annað, ég hefi verið að spá í hvort ég ætti ekki að kaupa slopp á hann Ragga minn, ekki náttslopp heldur slopp sem að eru hér til í öllum stærri súpermörkuðum en það eru sloppar fyrir þjónustustúlkur, svona eins og þið sjáið í auglýsingum í blöðum frá 1930, m.a. dökkbláir með inndregnu mitti hnepptir niður að framan og lítil blúnda til skrauts á kraganum, og svunta fylgir með, sem að er úr sama efni og sloppurinn, bridduð með sömu blúndu og kraginn. Hér eru þjónustustúlkur og eldhússtúlkur í svona sloppum og maður sér þær á hverjum morgni í súpermarkaðnum að versla inn fyrir húsbændurna. Raggi stakk meira að segja upp á því sjálfur hvort hann ætti ekki bara að fá sér svona slopp og vera í honum þegar Gyða systir kæmi næst í heimsókn, hún ein skilur líklega þetta djók. En satt best að segja eru þessir sloppar snilld og hlífa sannarlega fötum þeirra sem að eru í heimilisstörfum alla daga afskaplega vel.
Eftir nokkurra klukkutíma göngutúr í miðborginni og aftur heim fengum við okkur lúr og fórum svo í sturtu og út í búð og keyptum í matinn, við sem sagt ákváðum að elda góðan mat fyrir krakkana sem að komu heim úr vinnu kl. hálf níu.
Við ákváðum að vera svolítið grand og hafa nautalundir og gratineraðar kartöflur með góðri sveppasósu og salati. Þegar við komum að kjötkælinum í stórmarkaðnum vandaðist málið, allt of mikið til og ég vissi bókstaflega ekki hvað var lund, file eða bara hreinlega vöðvi í gúllas. Ég reyndi að gera mér grein fyrir þessu með því að það dýrasta hliti að vera það besta en allt virtist á sama verði. Það voru góð ráð dýr, ekki gat ég keypt eitthvað sem að ætti að mallast í klukkutíma til að nota í mínútusteik. Ég snéri mér því að einhverri manneskju sem að mér fannst líklegust til að geta tjáð sig á ensku og væri svona í útliti að hún hefði fína steik í það minnsta einu sinni í viku. Eftir nokkurt handapat og smá vangaveltur urðum við ásamt manninum hennar sem að var með henni sátt um sneiðar sem að mundu henta mér. Þetta tókst vel og maturinn í kvöld heppnaðist afskaplega vel og við ánægð með þessa dásamlegu nautakjötssneiðar sem að kostuðu 500 kr.
Já svona er lífið hér í Argentínu.
Jæja við skrifum meira annað kvöld ef að við verðum ekki allt of þreytt eftir siglinguna frá Uruqai.
Bestu þakkir fyrir skrifin og kveðjurnar öll sömul.
Góða nótt Jóna og Raggi.
13.4.2007 | 01:50
Une litre coka cola
Við fórum út á lífið við Ragnar, eða þannig. Klæddum okkur uppá eins og sagt er heima. Löbbuðum niður í steikhúsagöturnar og fengum okkur steik, hahahaha það liggur við að maður verði að fara í önnur hverfi til að fá eitthvað annað en dásemdar,dúnmjúka steik, nei ég segi nú bara svona það voru líka pasta réttir og kjúklinga réttir á boðstólnum en auðvitað þegar maður er í Argentínu fær maður sér steik. Þetta var notarleg stund og lærdómsrík. Í hvert skipti sem að við höfum fengið okkur nautasteik hér í þessari borg þá er ekki verið að hella á hana sósu eða láta bakaða kartöflu mér smjöri fylgja. Ef að maður vill fá eitthvað með þá skal maður panta það sér, svo sem eins og rukola salat (eða hvernig sem að það er nú skrifað) eða smá af frönskum kartöflum. Það er pottþétt ástæðan að við Raggi komum nú heim og erum ekki að sprynga, okkur líður afskaplega vel.
Við kláruðum okkar steikur og löbbuðum heim í rólegheitunum í dásamlegu veðri, ég í stuttermapeysunni sem að ég keypti hjá stúlkunni í New York, þessari frá Euquador sem að gaf okkur öll góðu ráðin.
Á leiðnni heim er mikið af fólki sem að vantar smá aur, en er samt ekki frekt, við vorum næstum komin heim þegar lítill drengur,bara eins og hann Jökull okkar spurði hvort við vildum, kaupa rós af honum. Hann stóð með sín stóru brúnu augu og hann var með svo fallegan svip, og ég spurði hvað kostar rósin. 1 dollar sagði hann og meinti bandarískan dollar þar sem að allt úir og grúir í ferðamönnum. Við vorum ekki með neina dollara á okkur og ég spurði hve marga pesósa, og hann sagði 3. Við keyptum af honum 3 rósir og borguðum með 10 pesósum sem að eru 250 kr. og hann þakkaði svo vel fyrir að okkur fannst þessar rósir sem að nú eru komnar í vel þvegna hvítvínflösku hinn mesti fjársjóður.
Við gengum áfram ánægð með mínar rósir og Ragga mínum vantaði diet coke til að fá sér eitt Whisky glas fyrir svefninn. Við komum að einni af mörgum sjoppunum hér í nágrenninu og nú skilur enginn nema á vissum aldri. Munið þið t.d. Gyða systir og Hafdís eftir Ragga sjoppu á Laugalæk. Á kvöldin var opin lúga og dásemdirnar allar þar fyrir innan og Raggi í Raggasjoppu stóð þar á sínum hvíta slopp og afgreiddi. Hér eru sjoppurnar svona.
Við sem sagt stóðum við lúgu og Raggi minn,sagði þú byður um Kókið, þú ert svo klár í því, og ég bað um "une litre coka cola" oh ég get sagt ykkur að þetta var gaman hvort sem að þetta var nú rétt eða ekki rétt. Hann "Raggi" í "Raggabúð" skildi þetta alveg fullkomlega og kom með kók og þá áttaði ég mig á að hann Raggi minn vildi Diet og ég bara sagði "diet" og það var nú ekki málið, og þessi maður hvort sem að hann heitir nú Raggi eða Juglios sagði á sínu máli sem að við bara skildum svo vel, að það væri algjör óþarfi að vera að reyna að tala ensku eða spönsku, við skildum hvort annað fullkomlega, bara að nota hendurnar og andlitið. við fórum afskaplega ánægð úr lúgunni hjá honum " Ragga í Raggabúð" með okkar Dietcoke heim og fannst við hafa eignast nýjan vin sem að gat bara hlegið með okkur vegna tungumálaörðuleika.
Við bjóðum góðrar nætur og skrifum meira á morgun.
12.4.2007 | 21:47
Gengin upp að hnjám
Jæja við vorum að skríða inn eða það liggur við, við vorum gjörsamlega orðin gengin upp að hnjá.
Við fórum héðan kl. 10 í morgun með leigubíl niður að höfninni sem að liggur við á, og þar löbbuðum við og nutum góða veðursins, ég held svei mér að þetta sé besti dagurinn sem að hefur komið og voru þó hinir góðir.
Það var margt ansi skemmtilegt að sjá á höfninni, seglskip, seglskútur, flottar byggingar meðfram bryggjunni og síðast en ekki síst brúin góða og við svo heppin að sjúkrabátur þurfti að komast upp eftir ánni og þar með urðu þeir að opna brúnna en það er gert þannig að stór hluti hennar snýst inn að stöpli sem að er í rúmlega miðri á. Ég held að ég verð að senda myndir á eftir af því. Við fórum síðan í stóran garð sem að var í töluverðri fjarlægð þarna frá og þar var okkur boðið að taka að okkur heimilslausan hund sem að grét og var svo vinalegur við okkur. Við gátum því miður ekki þegið þetta góða boð varðanna í garðinum og þeir skildu það þegar við sögðumst vera frá "Islandia" .
Eftir gott labb í garðinum fórum við sömu leið til baka og að skoða gamla höll, Dómkirkjuna og ráðhúsið. Allt eru þetta glæsilegar byggingar og við tókum mikið af myndum. Við ætluðum alltaf við næsta og næsta götuhorn að kalla á leigubíl en alltaf sáum við eitthvað nýtt sem að leiddi okkur nær og nær hingað heim og svo var veðrið til að njóta þess, ég að vísu eiginlega of vel klædd, hefði mátt geyma sokkarbuxurnar heima.
Krakkarnir voru svo að klára að koma myndum af lokaverkefni Fúsa úr Cooper Union á spjöld en fyrirlesturinn í kövld hjá Fúsa á að fjalla um lokaverkefnið hans sem sagt heilsuræktarstöð og bókasafn undir sama þaki á eyðinu yfir í Geldinganes. Við vorum að sjá mikið fleiri myndir en við vorum búin að sjá áður og þetta er verulega glæsilegt. ÉG ælta að taka einhverjar myndir af því á morgun.
Jæja nú erum við að hugsa um að koma okkur í sturtu og bara svei mér þá koma okkur út og fá okkur mat á góðum stað,en það er sko nóg af þeim hér. Krakkarnir koma ekki fyrr en 11 í kvöld heim og þá erum við sem sé ein á bát núna.
Byðjum að heilsa öllum heima.
11.4.2007 | 22:53
Góða veðrið komið aftur
Komið sæl öllsömul. Jæja ekki stóð nú stormurinn og regnið lengi yfir. Þegar við vorum búin að vera eins og sannkallaðir íslendingar og hanga í stofuglugganum nógu lengi og sjá fólk missa regnhlífarnar sínar öfugsnúnar út í veður og vind og jakkafata klæddu mennina sem að voru á leið á fund, reyna að vinda úr fötunum sínum á umferðaljósunum og verslings gömlu konurnar fá stuðning frá því fólki sem að næst þeim stóð þá bara læddum við okkur undir teppi með bók og fengum okkur síðan lúr. Við vöknuðum við að hurðin opnaðist með öllum sinum 3 lásum og Fúsi mættur á svæðið og kallaði "hæ" rétt eins og að hann væri að koma heim úr skólanum í gamla daga.
Það var komið þetta líka skínandi veður og við ekki sein á okkur að fara undan teppinu, við sáum að það var of seint að vera að fara til að skoða brúnna sem að við ætluðum að skoða í dag og þar sem að við höfum nú nægan tíma getum við gert það seinna. Við fórum þá bara í búðina og keyptum í matinn og ákváðum að taka úttekt á því hvort það væri nokkuð ódýrara að kaupa í matinn og elda sjálfur eða fara út að borða og ég get sagt ykkur það að það er næstum borgar sig að fara út að borða. Að vísu er hér til eitthvað af kryddi sem að krakkarnir geta notað aftur og eitt eldfast mót keyptum við í Disco (nafnið á stórmarkaðnum) til að gera gratineraðar kartöflur í, og svo auðvitað vatn og yougurt og svoleiðis dót.
Við erum nú búin að gera þennan fína kjúklingarétt sem að er í Gestgjafanum frá 2002 sem að ég tók með mér að gamni og nú bíðum, við eftir Florenciu sem að er á leið heim úr vinnu en Fúsi er búin að vera að undirbúa ýmislegt sem að hann tekur með sér á fyrirlesturinn á morgun hér heima.
Þegar við löbbuðum í búðina gjóuðum við augunum inn í herrafataverslun sem að er eins og Guðsteinn heima á Laugavegi nema bara minni. 4 eldri herramenn voru þar inni að afgreiða og við ákváðum að fara inn og þar var nú mikið af innfluttum fínum herrafötum í fínu harðviðarhillunum og Raggi mátaði rosalega flottan jakka sem að var því miður aðeins og síður og hefði verið hægt að stytta ef að ekki hefðu verið vasalok sem að þá mundu gera hlutföllin bjánaleg, en flottur var jakkinn og ég fór með trega út með Ragga og engan jakka en þennan fína pólóbol frá Yves Sant Laurent sem að kostaði aðeins 2.400 og ég sagði við hann þegar heim var komið að við mundum bara kaupa fleiri boli til að vinna upp tapið að hafa ekki getað keypt þennan fína jakka.
Jæja nú er Florencia á leiðinni og ég ætla að leggja á borð og ég skrifa meira fljótlega. Þið afsakið prentvillu á nýrri mynd sem að ég var að senda en þar skrifa ég að staðurinn minnti á Lyon og bætti óvart við h.
Góða nótt öll sömul og gaman var að fá línu senda frá Hafdísi, gömlu skólasystur minni og vinkonu Fríðu. Takk fyrir kveðjuna.