Föstudagsmorgun í New York

Eins og sjá má verð ég að kallast hálf óvirkur bloggari.  Það eru komnir ansi margir mánuðir síðan ég bloggaði síðast. 

En nú ætla ég að taka mig til og skrifa reglulega um veru okkar hér í New York næsta hálfan mánuðinn.

Það var sannarlega gaman að hitta hann Fúsa okkar eftir heilt ár, það er komið ár núna um næstu mánaðarmót síðan við kvöddum hann og Florenciu í Argentínu.  Florenciu hittum við á morgun en þá ætlar Fúsi  að leigja bíl og dugar ekki minna en Van til að fara með mótel sem að Florencia var að vinna og Fúsi að aðstoða hana með í Situ.  Við sem sé ætlum að keyra með  mótelið til Prinston en hún á að skila því eftir helgi.  Við ætlum síðan að eyða deginum þar í vonandi sama góða veðrinu og hér er núna.

Sólin var að setjast í gær þegar við komum hingað til Brooklyn og veðrið afskaplega gott.  Þó að mér finnist nú afskaplega gaman að vera á góðu hóteli þá verð ég að segja að maður kemst nú nær lífi og tilverju New York búa með  því að  vera hér í Brooklyn, við Broadway sem að er aðalgatan sem að liggur í gegn um allt hverfið.  Húsnæðið sem að Fúsi er með er gömul bankabygging í eigu gyðinga sem að eiga víst ansi margt í þessu hverfi.  Það eru sannarlega merki um að hér var áður banki, í risastórum eldhúsglugganum eru 3 göt eftir byssukúlur sem að fyllt hefur verið upp í með kítti, en þið getið verið róleg það eru járnrimlar fyrir öllum gluggum. 

Annað er sérstakt við þetta eldhús, fyrir utan er gata en fyrir ofan götuna eru járnbrautarteinar og ég sem að er alltaf við sama heygarðshornið að ná í líkingar úr gömlum bíómyndum, verð að segja að þetta er eins og maður sé í gamalli glæponamynd, við sitjum hér við eldhúsborðið og drekkum kaffi og spjöllum saman en þurfum svo að taka okkur pásu þegar lestin fer fram hjá því að þá heyrir enginn neitt í neinum, en húsið er sterkleg bygging og því hristumst við ekki neitt.  Nú svo keyra afríku Ameríkanarnir fram hjá með græjurnar í botni og við bara farin að dansa á eldhúsgólfinu áður en  að við vitum af.

Í gærkveldi þegar við komum fórum við á ansi skemmtilegan veitingastað að fá okkur að borða, þar var að  mestu töluð spænska en ansi var þetta kósý og góður matur og svo var ekki verra að hafa þar gítarleikara sem að söng og spilaði í einu horninu og stundum var eins og við værum komin á hlöðuball úti í sveit og svo þess á milli tók hann Portúgölsk þjóðlög.

Jæja nú ætla ég að fá mér morgunmat sem að Fúsi var að leggja á borð og svo ætlum við að koma okkur út og læra á lestarsamgöngur niður á Manhattan.


Nútíma þvottadagur, gamaldags uppþvottur

Ég ákvað í gær að hafa "þvottadag" í dag.  Ekki er það nú svo að það hafi safnast upp óhóflegur þvottur, bara í eina hvíta vél og aðra mislita.  En mér varð hugsað til hve tímarnir hafa nú breyst síðan ég var á aldri strákanna minna.  Þá átti ég heima í blokk sem að í voru 3 stigahús og að mig minnir 24 íbúðir til samans.  Það var eitt stórt þvottahús með mikilli vél og þeytivindu sem að þótti luxus og baðker á miðju gólfi til að leggja í bleyti í áður en að þvotturinn var tekin með stóru priki og færður inn í stóru stál tromluna sem að var svo gaman að fylgjast með þeyta til þvottinum fram og til baka og sápulöðrið spýttist út um götin á tromlunni.  Síðan þegar allt hafði verið skolað og sett í þeytivinduna var farið með það í næsta stóra herbergi sem að var þurrkherbergi og daginn eftir í það þriðja þar sem að var risastór strauvél stórt borð til að leggja stóru stykkin á til að brjóta saman og meira að segja hillur til að leggja allt frá sér í.   Ég man að það var pínu tilhlökkunarefni fyrir okkur systurnar sem að upplifðu þetta, að vera að snúast í kring um hana mömmu og hjálpa til þennan dag, því að það var mikill þvottur, hver íbúð fékk sinn þvottadag einu sinni í mánuði, getið þið ímyndað ykkur.  En nú er öldin önnur og nú hendir maður í vélar og þurrkara á milli annarra verka. 

Hins vegar sé ég fram á gamaldags uppvask á næstu dögum þar sem að uppþvottavélin neitaði í gærkveldi að fara í gang, ekki nema að ég geti tjónkað eitthvað við hana í dag, en ég kvíði svo sem ekki að fara að vaska upp á gamla móðinn, það er ágætt að hugsa og spá í lífið og tilveruna við þá iðju.

Í morgun var ég að setja í íþróttatösku Ragnars litla, gleymdi því í gærkveldi, og var að flýta mér, allt annað var tilbúið og ég finn töskuna og fína íþróttabolinn, handklæðið en fannst eitthvað skrítnar buxurnar sem að voru í bunkanum (eftir sjálfa mig).  Ég spyr Ragnar "eru þetta leikfimisbuxurnar þínar"  Hahahahaha hann hló að ömmu sinni og sagði "nei þetta eru sundbuxurnar hans Jökuls"  og svo voru bara buxurnar í pokanum.  Allt var klárt á réttum tíma og þeir skokkuðu í skólann saman félagarnir, og Ragnar alveg sérstaklega ánægður í nýju stígvélunum.

Það er ótrúlegt núna þegar smá gola feykir til trjánum fyrir utan að það skuli vera von á mikilli lægð núna um hádegisbil, kanske að hún hafi ákveðið að fara fram hjá, það kemur í ljós, ég vona allavega að ég komist á milli húsa með Jökul í dag, fyrst í tónfræðina og svo í hóp-fiðlutíma.

En nú er föstudagur á morgun og helgin bara að koma, tíminn flýgur áfram enda mikið að gera og svei mér þá ég hlýt að missa svona 2-3 kíló á þessum 17 dögum, ekki veitir nú af, en þrátt fyrir að hafa mikið að gera á hverjum degi njótum við afi samvistanna við drengina og það er hreint ekki leiðinlegt að hugsa um þá.


Blautar tær og sjóræningjastígvél

Jæja þá er þessi blauti dagur á enda, en von á öðrum á morgun. Ég horfði á eftir litlu drengjunum mínum labba í skólann í morgun í þvílíkri rigningu og vonaði bara að bleytan næði ekki inn að beini.

Ég fór til Kristínar og Braga að hjálpa Braga að reka endahnútinn á parketlögnina og mikið vorum við fegin þegar hann var búin að negla síðustu listana á eldhúsgólfið. Það komu þvílíkar dembur á meðan ég var hjá þeim og alltaf sagði ég, æææ ég vona að strákarnir séu ekki úti í frímínútum núna, ég hafði verulegar áhyggjur af þeim.  Ég fór heim til að taka á móti þeim og undirbúa Jökul í fiðlutíma og var í glugganum þegar þeir komu hoppandi og skoppandi yfir túnið við Kennaraháskólann.  Þeir voru ekki svo blautir og ástæðan var að börnunum var ekki hleypt út í frímínútum vegna rigningarinnar.  Hins vegar var Ragnar minn ansi blautur í annan fótinn og við fórum og keyptum á hann ný stígvél, hann var verulega ánægður með þau, þessi fínu sjóræningjastígvél úr Steinari Waage.  Við fórum síðan að versla í Bónus og á leiðinni út í bíl naut hann sín og hoppaði og skoppaði í sem flesta polla.

Þegar ég var búin að ganga frá vörunum fórum við Jökull í fiðlutíma og Ásdís ætlar að láta hann spila á tónleikum  laugardaginn 22. september, sama dag og frumsýningin er hjá Gunnari, það fannst honum sniðugt.

Ég verð sem sé heldur betur að standa mig í stykkinu að láta hann æfa vel og vandlega, ekki að það sé neitt vandamál, hann er svo samviskusamur og ég hlusta á diskinn með músíkinni og er þá betur með á nótunum. 

Við rétt sluppum heim áður en að halda átti á kóræfingu hjá Drengjakórnum og vorum komin um kl. 5, en þá var ekki kóræfing vegna veikinda kórstjóra, svo að við fórum og létum laga gleraugun hans Ragnars og ég bara framkvæmdi að panta mér tíma hjá augnlækni í leiðinni, búin að trassa það allt of lengi.

Á morgun er svo tónfræðitími og hóptími hjá Jökli og ég verð að segja það að ég bara dáist að henni Ólöfu minni að komast yfir þetta allt saman og vera byrjuð í háskólanámi í ofanálag.

En jæja ég ætla að skutlast í rúmið ekki veitir af að safna orku fyrir nýjan dag með hressum strákum sem að hafa mikið að gera.

 

 


Haustverkin

Það virðist vera orðin löngu árviss viðburður að lús heimsæki skóla landsins á haustin. Ég man eftir þegar mín börn voru á grunnskólaaldri, kom eitt og eitt tilfelli í nokkrum skólum og ég man að mér þótti það hræðileg tilhugsun ef að börnin fengju lús.

Það kom tölvupóstur frá skóla drengjanna í gær og var tilkynnt að nú væri lúsarfaraldur og fólk skyldi byrja á kemba. Drottinn minn dýri, ég fór að leita að kambinum sem að Ólöf sagði að væri í vissri körfu á baðinu, og jú ég fann einn, en hann er næstum tannlaus eftir notkun fyrri ára. Ég er ekki hissa á því, þetta er greinilega kambur sem að er ódýrari í framleiðslu en kamburinn sem að ég keypti þegar Ólöf var lítil og ég átti hann alla tíð, ætli hann mundi bara ekki finnast hjá mér ef að ég leita.

En ljóst er að ég verð að fara á stúfana og kaupa nýjan lúsakamb svona til vonar og vara.


Byrjun skólaviku og geitungur

Jæja allt gekk nú vel fyrir sig í morgun, nema að íþróttataskan hans Jökuls fannst bara alls ekki, þannig að útiíþróttafötin og skórnir fóru bara í eitt af stóru hólfunum í skólatöskunni.  Þegar við vorum um það bil að ganga frá nestinu og fara í fötin þá urðum við var við þennan líka stóra geitung í íbúðinni.  Jökull tók honum nú bara næstum því fagnandi eða þannig en við Ragnar yngri vorum ekki alveg eins hress.  Skólatöskunum var hent fram á gang og peysunum og svo strákunum á eftir og við kláruðum okkur þar og þeir fóru í skólann.

Ég fór með varfærni aftur inn í íbúðina en geitungurinn finnst ekki, kanske að hann hafi rambað aftur á gluggann sem að hann kom inn um.

En jæja mér er ekki til setunnar boðið það bíður mín eldhúsgólf á Bergstaðarstræti til að klára.


Ný skólavika

Jæja nú er skóli á morgun og amma búin að undirbúa að vekja stráka og eiga nýtt brauð, var að hnoða og það skal hefast á meðan við sofum og fara inn í ofn rúmlega 7 í fyrramálið.  Eftir kvöldmatinn fóru þeir í sturtu og Jökull æfði sig og svo fóru þér beint í rúmið án þess að mótmæla enda er það venjan á þessu heimili.  Í gærkvöldi eftir að hafa horft á Billy Elliott og þeir komnir í rúmið þá spurði Ragnar mig hvort hann mætti einhvertíma þegar við værum að passa þá og það væri kalt, sofa í peysu.  Ástæðan er að Billy þurfti að sofa í þykkri peysu utan yfir náttfötin sín vegna kulda í húsinu því að engin kol voru til. Þetta þótti Ragnari kósýlegt.

Jæja ég ætla að drífa mig í bólið, það býður mín parketlögn á morgun með Braga og ég ætla rétt að vona að það gangi hjá okkur að klára eldhúsgólfið sem að er ansi þúfótt, því að ég er orðin ansi lúin á þessari parketvinnu. Það væri allt annað að gera þetta á nýjum flotuðum gólfum og hornréttum herbergjum. En það verður gaman þegar þetta er búið og Kristín og Bragi geta varla beðið eftir að koma heimilinu í samt lag.  Ég vona að ég og Bragi klárum þetta bara fyrir 2 því að þá þarf ég að fara heim og taka á móti strákunum úr skólanum og keyra þá á kóræfingar.  Nú ef ekki klárum við það á þriðjudagsmorguninn.

Við sendum okkar bestu kveðjur til ykkar Ólöf og Gunnar í Þýskalandi og vonum að lærdómur og æfingar gangi vel.


Fjöruferð og þarfabrauð

Í dag var bakað þarfabrauð eins og um hafði verið rætt.  Á meðan rigndi mikið en svo stytti upp og eftir að þarfabrauðið hafði verið tekið vel út þá fór afi með yngri strákana í fjöruferð út á Gróttu og amman lagði sig á meðan, sennilega orðin frekar lúin vegna parketlagnar síðastliðinnar viku.

Ég rumskaði við að þeir læddust hér inn um kl. 5 og nú er klukkan að verða 6 og barnaefni að byrja.  Jökull kvartar sárann yfir því að þetta sé smábarnalegt barnaefni.  Eftir að því lýkur ætlar Jökull að æfa á sig á fiðluna þar til að maturinn verður á borð borinn og svo smella þeir sér í sturtu og fara snemma í rúmið því að nú er skóli á morgun og kóræfingar hjá báðum.  Glói ætlar hins vegar að fá ömmu með sér að kaupa striga svo að hann geti haldið áfram að mála þegar hann er búin í skólanum.


Billy Elliot

Jæja þá er dagur að kveldi kominn og drengirnir á leið í rúmið nema Glói sem að er að klára eitt af sínum stórkostlegu málverkum.  Þeir eru búnir að hafa það gaman í dag, fóru að heimsækja Kjalar og Heklu og léku sér þar í garðinum, borðuðu heimabakaða kanilsnúða og fóru í fjöruferð.

Við náðum í þá eftir að hafa verið í parketinu í dag og ekki gátum við nú klárað eins og við ætluðum en þetta mjakast allt saman, fórum heim og bökuðum okkar helgar pizzu og strákarnir horfðu á nýjan þátt á stöð 2 um risaeðlur sem að þeim þótti alveg frábær. Eftir það var horft á mynd eins og alltaf er gert með þeim um helgar og myndin Billy Elliot varð fyrir valinu núna.  Þeim leist nú ekki sérstaklega vel á í byrjun að ég ætlaði að láta þá horfa á mynd um strák sem að vildi læra ballett.  En þegar ég sagði þeim að þetta væri enginn venjulegur strákur, hann væri fátækur drengur sem að væri búin að missa mömmu sína og pabbi námuverkamaður í verkfalli og amman ætti heima hjá þeim og væri gömul rugluð kona, þá fannst þeim að þetta hlyti að vera áhugaverð mynd.

Ég get með sanni sagt að myndin féll í góðan jarðveg og þeir nutu hennar fram í fingurgóma, og auðvitað tók Ragnar yngri nokkra takta eins og hans er von og vísan eftir að myndinni lauk.

Ég stakk upp á að það væri nú ef til vill gaman að verða sér úti um Svanavatnið á DVD og þeir tóku vel í það.

Við erum komin núna niður og þeir að fara að hátta og bursta tennur og hlakka til morgundagsins því að þá skal baka "Þarfabrauð" sem að virðist vera í uppáhaldi kynslóð eftir kynslóð, þessi gamla góða uppskrift frá henni langa-langömmu, og Jökull pantaði heitt súkkulaði með, þannig að mér sýnist að það verði gamaldags sunnudagur á morgun.


Samviskusemi

Áhyggjuefni Jökuls þennan laugardagsmorgun er að hann hafi ef til vill ekki tíma í að æfa sig á fiðluna vegna þess að þeir séu að fara til Kjalars og Heklu.  Hann er svo ótrúlega samviskusamur. 

Ég áttaði mig á, klukkutíma eftir morgunmat að ég hafði gleymt lýsinu og sagði við þá að ég væri nú ferleg að hafa gleymt því, en þá tjáði Jökull mér að lýsinu væri sleppt um helgar, bara tekið áður en þeir færu í skólann, þannig að ég slapp fyrir horn í þetta sinn.

 


Á báðum hæðum

Jæja þá er Ólöf farin til Halle að vera Gunnari sínum til skemmtunar og halds og trausts, það er ekki langt í frumsýningu.  Hún fór í gær og við amman og afinn tókum formlega við heimilisrekstri hér á neðri hæðinni og erum því á báðum hæðum næstu 17 daga.  Við komumst að því í morgun, vorum reyndar farin að gruna að dýnan okkar sem að var svo frábær fyrir 13 árum væri að verða okkur erfið.  Við vöknuðum eins og ný slegnir túnskildingar á dýnunni í rúminu hér á neðri hæðinni.  Ég held að það sé komin tími til að skipta í okkar rúmi.

Drengirnir eru að vanda eins og hugur manns, enda vel upp aldir.  Jökull læddist í morgun þegar þeir vöknuðu kl. 8.45 og lokaði hurðinni inn í svefnherbergi svo að barnaefnið mundi nú örugglega ekki trufla okkur.  

Í dag ætla þeir að fá að heimsækja vini sína Heklu og Kjalar á meðan við klárum parketlögn með Kristínu Völu og Braga, en það er eins gott að fara að klára það svo að allt verði orðið fínt og flott þegar sú litla kemur í heiminn, 7 vikur eru ekki lengi að líða.

Ég er orðin þokkalega klár í að leggja parket, mæli (nokkuð sem að ég hefi nú aldrei verið í vandræðum með) saga og legg, og meira að segja saga með rafmagnssög, það er nefnilega í svona gömlum íbúðum margt sem að þarf að saga út fyrir, skekkjur, ofnarör og hurðargöt.  ég verð að viðurkenna að ég er bara þokkalega stolt af sjálfri mér.  Ég tek því fram að ég ætla samt ekki að fara að taka að mér svona almennt að parketleggja fyrir fólk.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband